Gerð rýmingaráætlana í Öræfum flýtt

Öræfajökull.
Öræfajökull. mbl.is/Rax

Í nýlegu hættumati fyrir svæðið í kringum Öræfajökul kemur fram að tíminn frá því að eldgos næði til yfirborðs á jöklinum og að flóð væri komið að þjóðvegi 1 sé í mörgum tilfellum aðeins 20 mínútur. Mikið af byggð í Öræfum er innan þessa svæðis og því ljóst að við er að eiga einna erfiðustu aðstæður við eldfjöll á Íslandi. Gerð rýmingaráætlana fyrir þetta svæði hefur nú verið flýtt vegna þeirrar auknu virkni sem hefur verið í jöklinum síðustu daga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi.

Frá því að tilkynning barst um torkennilega lykt við Kvíá og síðan sigketill myndaðist í öskju Öræfajökuls undir lok síðustu viku hafa verið haldnir reglulegir fundir með ábyrgðaraðilum í sveitarfélaginu Hornafirði.

Ásamt bæjarstjóranum, Birni Inga Jónssyni, sem jafnframt er formaður almannavarnanefndar, hafa fundina setið lögreglumenn á Hornafirði og Kirkjubæjarklaustri, Kjartan Þorkelsson lögreglustjóri og yfirstjórn lögreglunnar á Suðurlandi. Einnig hafa fulltrúar almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra verið á fundunum.

Rætt hefur verið um stöðuna og upplýsingar frá vísindamönnum metnar með tilliti til öryggis íbúa, ferðamanna og annarra sem dvelja eða fara um það svæði sem talið er í hættu af flóðum frá Öræfajökli. Það nýlega hættumat sem liggur fyrir hefur reynst ákaflega mikilvægt í öllu mati á ástandinu, segir í tilkynningunni.

Horft til tveggja verkþátta við gerð rýmingaráætlana

Fyrir um tveim vikum voru haldnir íbúafundir á svæðinu þar sem farið var yfir þau verkefni sem fram undan eru varðandi rýmingaráætlanir og önnur viðbrögð sem nauðsynleg eru. Ekki hafði verið reiknað með að vinna við þessar áætlanir fyrr en seinni hluta næsta árs. Vegna þeirrar aukni virkni sem nú er staðreynd hefur vinnunni hins vegar verið flýtt.

Hér sést sigketillinn vel.
Hér sést sigketillinn vel. Mynd/Ágúst J. Magnússon

Við gerð rýmingaráætlana er horft til tveggja verkþátta; áætlunar um neyðarrýmingu þar sem eldgos hefjist nánast fyrirvaralaust og enginn tími gefist til undirbúnings og hins vegar rýmingaráætlunar í fjórum þáttum þar sem hægt væri að vinna skipulega að rýmingu. 

Slík áætlun væri í meginatriðum í fjórum fösum:

Stig a:

• Slóðum og vegum frá þjóðvegi 1 lokað
• Ytri lokanir settar upp
• Lokað inn á svæðið frá Lómagnúp í vestri og Jökulsárlóni i austri
• Eingöngu íbúum, vísindamönnum, viðbragðsaðilum, flutningabílum og annarri nauðsynlegri umferð hleypt inn fyrir
• Flutningur á búfé undirbúinn

Stig b:
• Allir ferðamenn og aðrir sem ekki þurfa nauðsynlega að vera á svæðinu látnir yfirgefa það
• Búfé flutt á brott
• Lokað fyrir alla umferð inn á svæðið annarra en viðbragðsaðila og vísindamanna

Stig c:
• Allsherjarrýming svæðisins

Stig d:
• Lokanir færðar vestar og austar með tilliti til spár um öskufall
• Rýmingarsvæði endurmetið með tilliti til spár um öskufall

Hugsanlegt að komi til rýmingar án eldgoss

Lykilaðilar við gerð og útfærslu rýmingaráætlana eru íbúar og aðrir hagsmunaaðilar á rýmingarsvæðinu og í næsta nágrenni.

Eins og sjá má á þessum verkþáttum og væntanlegu umfangi þeirra kallar þetta á stöðuga vöktun og mat á aðstæðum. Möguleiki er á að gripið verði til rýmingar eða a.m.k. hluta af ofangreindu ferli eftir þróun atburðarásar og rýming síðar afturkölluð, án þess að til eldgoss komi. Við slíku er eðlilegt að búast þegar horft er til hættunnar og þess stutta tíma sem gefst til rýmingar þegar eldgos er hafið.

Nú þegar liggur fyrir áætlun um hvernig skilaboðum verði komið til þeirra sem eru á rýmingarsvæðinu og virkjun neyðaráætlunar um rýmingu verður háttað. Á næstu dögum verður unnið með heimamönnum í Öræfum að útfærslu hennar. Jafnframt verður mikill kraftur lagður í gerð rýmingaráætlunar byggðrar á þeim fjórum stigum er hér að framan greinir. Innlegg heimamanna skiptir þar mestu.

Lögreglumenn munu áfram sinna sérstöku eftirliti á svæðinu sem m.a. felur í sér aðstoð við mælingar vísindamanna þar til síritandi eftirlitsbúnaði hefur verið komið fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert