Háskóli Íslands tekur þátt í  alþjóðlegu neti háskóla

Háskóli Íslands er orðinn hluti af edX, alþjóðlegu neti háskóla …
Háskóli Íslands er orðinn hluti af edX, alþjóðlegu neti háskóla sem bjóða opin netnámskeið, en edX var stofnað af bandarísku háskólunum Harvard og MIT. Ljósmynd/Háskóli Íslands

Háskóli Íslands er orðinn hluti af edX, alþjóðlegu neti háskóla sem bjóða opin netnámskeið, en edX var stofnað af bandarísku háskólunum Harvard og MIT. „Tilgangur þátttöku Háskólans í edX er að auka aðgengi að öflugu og spennandi námi, koma þekkingu innan skólans á framfæri á alþjóðavettvangi og þróa kennsluaðferðir í takt við örar breytingar á tækni og samfélagi,“ að því er segir í fréttatilkynningu frá HÍ.

„edX er einn helsti vettvangur opinna námskeiða fyrir almenning á alþjóðavísu og er samstarfsnetið sérstaklega þekkt fyrir að bjóða upp á góð og áhugaverð námskeið á vegum flestra virtustu háskóla heims,“ er haft eftir Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, í tilkynningunni.

„Það er Háskóla Íslands mikill heiður að vera boðin þátttaka í edX og mun samstarfið efla enn frekar þróun kennsluhátta við skólann bæði fyrir fjar- og staðnám. Með þátttöku í edX er Háskóli Íslands orðinn hluti af spennandi þróun og getur nýtt þetta samstarf við að efla kennsluhætti við skólann.“ 

Fyrsta námskeið Háskólans í edX-samstarfinu verður í norrænum miðaldafræðum og ber það heitið The Medieval Icelandic Sagas. Í námskeiðinu verða Íslendingasögurnar í háskerpu með öllum sínum undrum, æsandi viðburðum, mögnuðum tilsvörum og litbrigðum í mannlífi.    

„Fjöldi þátttakenda í edX-netnámskeiðum af þessu tagi gæti vel farið upp í tugi og jafnvel hundruð þúsunda,“ er haft eftir Hjalta Snæ Ægissyni, sem verður aðalkennari námskeiðsins. „Mesti fjöldi þátttakenda í opnu netnámskeiði á edX til þessa var á námskeiði í enskri ritun sem u.þ.b. hálf milljón manns hefur sótt á netinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert