Rafleiðnin stöðug frá hádegi

Raf­leiðni hefur haldist stöðug í Múla­kvísl frá hádegi, eftir að …
Raf­leiðni hefur haldist stöðug í Múla­kvísl frá hádegi, eftir að hafa áður hækkað veru­lega tvo dagana á undan. Mbl.is/Jónas Erlendsson

Rafleiðni í Múlakvísl á Mýrdalssandi hefur haldist stöðug frá því um hádegi í dag, en leiðni í áni hefur verið að aukast undanfarna daga.

„Þetta er það sama og er búið að vera síðustu daga. Það er mjög kalt á svæðinu og lítið leysingavatn að koma með, þannig að þetta er bara jarðhitavatn sem lekur beint frá jöklinum,“ segir Bryndís Ýr Gísladóttir, sérfræðingur á náttúruvársviði Veðurstofu Íslands.

Hún segir Veðurstofuna ekki hafa miklar áhyggjur af ástandi mála eins og staðan sé núna, en áfram verði þó fylgst vel með.

„Annars er lyktin voða sterk við Múlakvísl og getur valdið óþægindum að vera í kringum ána,“ segir Bryndís Ýr og mælir með því að fólk sé ekki mikið á ferð við Múlakvísl meðan brennisteinslyktin sé svona megn.

Mbl.is ræddi í gær við Reyn­i Ragn­ars­son, fyrr­ver­andi lög­reglu­v­arðstjóra í Vest­ur-Skafta­fells­sýslu, sem hefur haft eft­ir­lit með mæl­ing­um á raf­leiðni í ánni. „Ég hef ekki séð svona háa leiðni í henni áður,“ sagði Reyn­ir þá í sam­tali við mbl.is.

Hann flýg­ur auk þess reglu­lega yfir Mýr­dals­jök­ul og greindi í flugi sínu í gær tvo sig­katla í jöklinum, sem þó eru ekki taldir tengjast rafleiðninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert