Með kíló af kókaíni innvortis

Maðurinn var með 106 pakkningar af kókaíni innvortis. Myndin er …
Maðurinn var með 106 pakkningar af kókaíni innvortis. Myndin er úr safni. AFP

Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar nú fíkniefnamál þar sem í hlut á erlendur, líkamlega fatlaður karlmaður á fimmtugsaldri. Hann reyndist hafa innvortis eitt mesta magn fíkniefna sem lögregla hefur séð, eða rúmlega eitt kíló af kókaíni í 106 pakkningum. Maðurinn sætir nú gæsluvarðhaldi.

22. nóvember stöðvaði tollgæslan manninn við komuna til landsins. Hann var þá að koma frá Frankfurt. Lögregla var kvödd til þar sem grunur lék á að maðurinn væri með fíkniefni innvortis. Hann var færður í röntgenmyndatöku og kom þá ljós að hann var með mikið magn af aðskotahlutum innvortis sem reyndust vera kókaínpakkningarnar ofangreindu.

Umræddur maður hefur áður komið við sögu lögreglu í Belgíu vegna fíkniefnamála þar, samkvæmt því sem fram kemur í upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert