Líður ekki vel á gömlum sjúkrabílum

Fyrir tveimur árum rann út samningur ríkisins og Rauða krossins …
Fyrir tveimur árum rann út samningur ríkisins og Rauða krossins um rekstur sjúkrabíla landsins. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Fyrir tveimur árum rann út samningur milli ríkisins og Rauða krossins um rekstur og viðhald sjúkrabíla landsins. „Við höfum miklar áhyggjur af því að heilbrigðisráðuneytið hefur ekki endurnýjað samninginn. Ábyrgðin liggur þar,“ segir Njáll Pálsson, formaður fagdeildar sjúkraflutningamanna hjá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. 

Njáll segir nauðsynlegt að farið verði í útboð á sjúkrabílunum því þá þarf að endurnýja. Fjölmargir sjúkrabílar landsins eru orðnir gamlir og mikið eknir. Dæmi eru um að sjúkrabíll hafi bilað í útkalli og átti slíkt atvik sér stað í sumar á Sólheimasandi.   

„Sjúkraflutningamönnum líður ekki vel með að vera á gömlum bílum og mikið eknum. Það skapar óþarfa óþægindi og spennu,“ segir Njáll. Hann tekur fram að þrátt fyrir að samningar séu lausir hafi Rauði krossinn brugðist við eins og hann hefur getað varðandi nauðsynlegar viðgerðir á bílunum. 

„Fólk er óþreyjufullt og vill að þetta mál sé klárað,“ segir Njáll. Sjúkraflutningamenn hafa enga vitneskju um hvernig samningaviðræðum milli heilbrigðisráðuneytisins og Rauða krossins miðar. Í september sendi Landssambandið frá sér ályktun þar sem áhyggjum var lýst af hægri endurnýjun sjúkrabílaflotans. Engin breyting hefur orðið á stöðu mála frá því sú ályktun var gerð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert