Ætlum að vera 5 árum á undan Norðurlöndunum

Emmanuel Macron Frakklandsforseti bauð til fund­ar­ins, í sam­starfi við fram­kvæmda­stjóra …
Emmanuel Macron Frakklandsforseti bauð til fund­ar­ins, í sam­starfi við fram­kvæmda­stjóra Sam­einuðu þjóðanna og for­seta Alþjóðabank­ans. Mynd/Skrifstofa forseta Frakklands

Góður rómur var gerður á leiðtogafundi um loftslagsmál í París í dag að þeirri ákvörðun íslenskra stjórnvalda að ganga lengra en Parísarsamkomulagið kveður á um. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, sem kynnti áform­ nýrr­ar rík­is­stjórn­ar í um­hverf­is- og lofslags­mál­um á fundinum.

„Ég kynnti þarna markmið Íslands um kolefnislaust Íslands 2040 og hvernig við hyggjumst ná því og það mæltist vel fyrir,“ segir Katrín í samtali við  mbl.is. „Sem lítil þjóð með endurnýjanlega orkugjafa þá eigum við mikil tækifæri til þess að ganga lengra og það var gerður góður rómur að því.

Það eru fleiri þjóðir að setja sér slík markmið, en við erum metnaðarfull í tímasetningum og ætlum að vera vera fimm árum á undan nágrönnum okkar á Norðurlöndunum að því er fram kom á fundinum.“

Fundurinn ber yfirskriftina „One Pla­net summit“ og er hald­inn í til­efni að því að í dag, 12. des­em­ber, eru tvö ár liðin frá samþykkt Par­ís­ar­sam­komu­lags­ins. Emmanuel Macron Frakklandsforseti bauð til fund­ar­ins, í sam­starfi við fram­kvæmda­stjóra Sam­einuðu þjóðanna og for­seta Alþjóðabank­ans, og var hann sótt­ur af yfir 50 þjóðarleiðtog­um.

Erum að tapa baráttunni 

„Þetta var góður fundur,“ segir Katrín. „Þjóðarleiðtogar fóru þar yfir hvað þeir hafa gert til að fylgja eftir Parísarsamkomulaginu á síðastliðnum tveimur árum. Þjóðir heims voru þar að kynna sín markmið, en líka aðrir aðilar til að mynda úr einkageiranum og víðar að.“ Áherslan að þessu sinni hafi verið á framkvæmdaatriðin og hvernig eigi að ná settum markmiðum.

Svört sýn var dreginn upp í Hörpu í vor þar sem fram kom að Ísland væri fjarri því að ná sínum markmiðum og er landið ekki eina þjóðin sem þannig er ástatt fyrir.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mætir í frönsku forsetahöllina til fundar við …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mætir í frönsku forsetahöllina til fundar við Emmanuel Macron Frakklandsforseta. AFP

„Emmanuel Macron forseti Frakklands sagði við upphaf þessa fundar að hann teldi að við værum að tapa baráttunni nema mikið væri að gert,“ segir Katrín. „Ég held samt að fundurinn hafi skilið okkur eftir bjartsýnni en áður, því það er alveg ljóst að þjóðir heims eru að taka þetta alvarlega.“ Nefnir Katrín að sú mikla þátttaka sem var á fundinum sýni vel hversu mikla áherslu þjóðarleiðtogar heims leggja á málaflokkinn.  

Sterkt að fá áminningu frá eyríkjunum

Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi frá því í sumar að Bandaríkin myndu segja sig frá Parísarsamkomulaginu, en stjórnendur ýmissa ríkja landsins eru þó ekki á sama máli og var fjöldi þeirra á fundinum. „Þarna voru ríkisstjórar, borgarstjórar og forstjórar frá Bandaríkjunum sem voru að lýsa því hvernig þeir hyggjast ná þessum markmiðum, þó að alríkisstjórnin hafi dregið sig út úr þessu.“

Segir Katrín það gefa visst tilefni til bjartsýni. „Mér fannst áhugavert að sjá á þessum fundi hvernig það er bara hluti þessa málaflokks sem er á þessu landstjórnarstigi og að það eru ekki síst sveitarfélögin og borgirnar sem skipta lykilmáli, m.a. við að breyta samgöngukerfi og skipulagi til að þjóna markmiðum um kolefnishlutleysi og minni losun.“ 

Raddir þeirra ríkja sem finna hvað mest fyrir loftlagsbreytingum voru áberandi á fundinum. „Lítil eyríki í Kyrrahafi sem voru áberandi líka á fundinum fyrir tveimur árum komu nú og minntu á sig. Það var sterkt að fá þessa áminningu aftur af því að þessi ríki börðust mjög fyrir því þá að það væri miðað við 1,5 gráðu en ekki tvær gráður. Þessi ríki eru mjög langt komin að undirbúa sig undir hvernig þau geti brugðist við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert