Segja gamla veginn stórhættulegan

Íbúarnir hvetja til lokunar gamla Álftanesvegar.
Íbúarnir hvetja til lokunar gamla Álftanesvegar. mbl.is/RAX

Fasteignaeigendur og íbúar Prýðahverfis hafa skorað á bæjarráð Garðabæjar að hvika hvergi frá samþykktum um lokun gamla Álftanesvegar.

Fjöldi fasteignaeigenda og íbúa við veginn hefur skrifað undir áskorunina vegna andmæla frá húseigendum í Hafnarfirði gegn lokun vegarins.

Fram kemur að um árabil hafi staðið styr um veginn út á Álftanes en ágreiningslaust hafi verið að vegurinn væri stórhættulegur. Ákvörðunin um að leggja nýjan veg um Garðahraun hafi verið til allra heilla.

„Hinn gamli Álftanesvegur stendur enn óbreyttur og er enn þá stórhættulegur vegna mikillar umferðar og hraðaksturs. Er þar fyrst og fremst um að kenna mikilli umferð um veginn til Hafnarfjarðar. Af þessu skapast stórhætta, ekki aðeins fyrir börn að leik í hverfinu heldur einnig fyrir gangandi vegfarendur og aðra umferð, en sjö íbúagötur tengjast veginum,“ segir í bréfi fasteignaeigendanna og íbúanna til bæjarráðs.

Þar er einnig minnst á þær byggingaframkvæmdir sem hafa staðið yfir í Prýðahverfi. „Við sem þar búum höfum reist þar hús eða keypt á þeirri forsendu að gildandi skipulag og skipulagstillögur stæðust, m.a. að Álftanesvegurinn gamli yrði lokaður til vesturs.“

Skorað er á bæjaryfirvöld í Garðabæ að fylgja eftir skuldbindingum bæjarins og gildandi skipulagi og þess krafist að veginum verði lokað sem allra fyrst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert