Lægra hlutfall kvenna skyggir á

Steingrímur J. Sigfússon er nýkjörinn forseti Alþingis og ávarpaði þingheim …
Steingrímur J. Sigfússon er nýkjörinn forseti Alþingis og ávarpaði þingheim að því tilefni. mbl.is/Eggert

„Það skyggir nokkuð á þessa þingsetningu að hlutur kvenna í hópunum hafi minnkað verulega,“ sagði nýkjörinn forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon. Hann sagðist vona að það yrði stjórnmálaflokkum hvatning til þess efla hlut kvenna og skapa þeim skilyrði til stjórnmálaþátttöku.

Steingrímur sagði #metoo byltinguna engan hafa látið ósnortinn og vilji sé til þess að efna til sérstaks fundar vegna málefnisins snemma á næsta ára. „Sá ómenningarheimur sem við höfum fengið að sjá inn í, og þar eru stjórnmálin ekki undanskilin, kallar á viðbrögð.“

Þá hafi hann þegar falið lagaskrifstofu Alþingis að hefja undirbúning og skoðun á því hvernig best sé að taka á þessum málum á vettvangi þingsins, ekki síst með því að endurskoða siðareglur þingmanna þannig að þær taki með skýrum hætti til þess sem ekki telst við hæfi.

100 ára fullveldisafmæli 

Á næsta ári verða liðin 100 ár frá fullveldi Íslands og stendur til að halda hátíðarfund á Þingvöllum þann 18. júlí. Steingrímur sagði hátíðarfundi undir beru lofti á Þingvöllum sjaldgæfa og mikið hátíðarefni. Þá hafa um 100 verkefni, um land allt, verið styrkt vegna afmælishátíðarinnar og búast má við þeim fjölgi.

Þá fagnaði forseti Alþingis því sérstaklega að efling Alþingis væri á dagskrá nýrrar ríkisstjórnar og sagðist ekki minnast þess að áður hafi verið getið til þess með svo skýrum hætti í stjórnarsáttmála. Áframhaldandi stuðningur við byggingu skrifstofubyggingar á Alþingisreit væri mikilvægur fyrir eflingu Alþingis. „Fyrir hönd Alþingis fagna ég því að styrkja eigi löggjafar-, fjárstjórnar- og eftirlitshlutverk Alþingis á kjörtímabilinu með auknum stuðningi við nefndastarf og þingflokka.“

Létt yfir þingheimi

Sem starfsaldursforseti stjórnaði Steingrímur kjöri um forseta Alþingis og las upp tilnefningar, en aðeins ein tilnefning hafði borist um Steingrím sjálfan. Spurði hann þá þingheim hvort aðrar tilnefningar væru og heyrðist kallað úr salnum: „Já!“ Þar reyndist þó um góðlátlegt grín sem uppskar mikinn hlátur viðstaddra. Steingrímur var svo kosinn forseti með 54 atkvæðum en 5 seðlar voru auðir. 

Á fundinum lagði kjörbréfanefnd einnig til að kjörbréf aðalmanna og varamanna yrðu samþykkt. Gekk það eftir og því næst undirrituðu þingmenn drengskaparheit. Birgir Ármannsson, formaður kjörbréfanefndar, fór yfir álit nefndarinnar og nefndi athugasemd sem hafði borist vegna uppákomu tengda Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar, þar sem dóttir hans fór með honum í kjörklefa. Sagði Birgir að niðurstaða nefndarinnar væri þrátt fyrir það að ekki væri hægt að draga niðurstöðu kosninga í efa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert