Gjaldskrá Strætó hækkar á nýju ári

Strætó.
Strætó. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Á fundi stjórnar Strætó bs. 6. desember sl. var samþykkt að breyta gjaldskrá Strætó í takt við almenna verðlagsþróun og vegna þjónustuaukningar sem ráðist verður í 7. janúar næstkomandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Strætó. Gjaldskrá Strætó verður hækkuð að meðaltali um 4,9% en ný gjaldskrá tekur gildi 3. janúar 2018. Almennt staðgreiðslugjald og stakt fargjald í appinu verður 460 kr. eftir breytingu. Á sama tíma verður farið í umfangsmiklar leiðakerfisbreytingar sem hafa í för með sér töluverða þjónustuaukningu.

Sérstakur næturakstur Strætó úr miðbænum mun hefjast aðfaranótt laugardags 13. janúar.  Stakt fargjald með næturvögnum verður 920 krónur eða 2 strætómiðar. Handhafar strætókorta munu hins vegar geta notað kortin í næturvagnana án frekari kostnaðar.

Í eigendastefnu Strætó sem samþykkt var í apríl 2013 kemur fram að stefnt skuli að því að fargjaldatekjur standi undir allt að 40% af almennum rekstrarkostnaði Strætó. Í dag standa fargjaldatekjur undir um 34% af almennum rekstrarkostnaði félagsins.

Þann 7. janúar næstkomandi munu innleiðast umfangsmiklar breytingar á þjónustustigi Strætó.

  • Leið 6 verður stytt og sett á 10 mínútna tíðni á annatímum. Sama fyrirkomulag hefur verið á leið 1 í rúmt ár og hefur það reynst mjög vel.
  • Þjónustutími verður lengdur á leiðum 1, 2, 3, 4, 5, 6, 11, 12, 15 og 18 til klukkan 01:00 á kvöldin.
  • Sex leiðir munu sinna næturakstri úr miðbæ Reykjavíkur á aðfaranóttum laugar- og sunnudaga. Leiðirnar munu aka á ca. klukkutíma fresti frá klukkan 01:00 til ca. 04:30.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert