Ráðherra samþykkti tillögu Geðhjálpar

Velferðarráðuneytið.
Velferðarráðuneytið.

Heilbrigðisráðherra hefur samþykkt tillögu Geðhjálpar um að setja á laggirnar starfshóp til að meta kosti þess að færa svokallaðar fyrirframgefnar tilskipanir (Advance Directives) fólks með geðrænan vanda inn í íslenska löggjöf.

Geðhjálp fagnar ákvörðuninni enda er þetta ákaflega mikilvægt skref í átt að bættum lífsgæðum fólks með geðrænan vanda. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Geðhjálp.

„Hugtakið fyrirframgefin tilskipun felur meðal annars í sér formlega viðurkenningu samfélagsins á vilja sjúklings í sjúkdómsmeðferð hafi viðkomandi verið metinn svo af viðkomandi yfirvöldum að hann hafi misst getuna til að taka ákvarðanir um eigið líf,“ segir í tilkynningunni.

„Þannig getur manneskja sem glímir við geðræn veikindi ákveðið fyrirfram hver taki ákvarðanir fyrir hennar hönd og haft áhrif á sjúkdómsmeðferð sína ef til þess kemur að ráðin eru tekin af henni í sjúkdómsferlinu.“  

Fram kemur í tilkynningunni að fjölmörg ríki á Vesturlöndum hafi tekið upp fyrirframgefna tilskipun og þar með viðurkennt rétt fólks með geðrænan vanda til að taka ákvarðanir um eigið líf og meðferð í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Forsvarsfólk Geðhjálpar kynnti hugmyndina að fyrirframgefnum tilskipunum fyrir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra á miðvikudaginn.

Í framhaldi af því ákvað ráðherra að skipa starfshóp til að meta kosti þess að færa fyrirframgefnar tilskipanir inn í íslenska löggjöf. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert