Þori, GET og vil

Til teymisins leitar bæði fólk sem hefur verið veikt lengi …
Til teymisins leitar bæði fólk sem hefur verið veikt lengi og fólk sem hefur dottið út úr sinni rútínu tímabundið vegna veikinda. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Það hefur verið erfitt að fá einhvern einn til að taka ábyrgð á þessu en ákvörðunin er tekin innan heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Frumkvæðið kemur þaðan, ekki er vilji til að bjóða lengur upp á þessa þjónustu og ákvörðunin er tekin án alls samráðs við okkur. Þetta er mikil afturför,“ segir Auður Axelsdóttir, iðjuþjálfi og forstöðumaður Geðheilsu- og eftirfylgdarteymis (GET), sem starfað hefur í þágu fólks með geðraskanir í hálfan annan áratug, en ákveðið hefur verið að leggja teymið niður.

Skýtur skökku við

Auður segir þetta skjóta skökku við enda hafi Alþingi samþykkt á síðasta ári að stefna að fjölgun faglegra teyma af þessu tagi í heilbrigðiskerfinu. Þrjú ný teymi eru í burðarliðnum innan heilsugæslunnar en ekki hafi verið talað um að þau eigi að leysa GET af hólmi. „Þannig er alla vega ekki talað í mín eyru og vandamálið er að ég fæ ekki nokkurn mann til að tala út um málið. Er eðlilegt að ríkisstofnanir geti upp á sitt eindæmi tekið til sín fjármagnið sem ætlað er starfi sem þessu en hent reynslunni og árangrinum? Notað fjármagnið síðan í gjörólík teymi. Það er eitthvað bogið við þetta,“ segir Auður og bætir við að þjónusta GET sé mjög ódýr.

Spurð hvort hún hafi snúið sér til heilbrigðisráðuneytisins kveðst hún hafa gert það en það hafi verið í tíð síðasta ráðherra. „Ég bind að sjálfsögðu vonir við það að nýr ráðherra sýni málinu áhuga og skilning.“

Auður er ósátt við vinnubrögðin en henni var tilkynnt ákvörðunin eftir að hún var tekin og ekki var á neinum tímapunkti haft samráð við hana eða aðra innan teymisins. „Er ekki eðlilegt að ræða málið og kalla eftir sjónarmiðum teymisins þegar áherslum er breytt með þessum hætti?“ spyr hún. „Það samtal fór aldrei fram. Okkur bara tilkynnt niðurstaðan.“

Virkar vel saman

Fimmtán ár eru síðan GET var sett á laggirnar, að frumkvæði Auðar, og samþykkti hún beiðni um að það yrði vistað innan heilsugæslunnar. Þjónusta GET er þríþætt; einstaklingseftirfylgd, aðstandendastuðningur og notendahópur. Á sama tíma stofnaði hún ásamt fjórum einstaklingum með geðraskanir Hugarafl, sem er samstarfshópur notenda og fagfólks þar sem notendaþekking og hópastarf er í forgrunni. Hugarafl hefur síðan unnið við hlið teymisins.

„Ég hef verið brautryðjandi fyrir batanálgun og valdeflingaraðferð í vinnu með fólki með geðraskanir og hefur þetta tvennt, faglega vinnan sem fer fram innan teymisins og félagslega vinnan sem Hugarafl hefur staðið fyrir af miklum myndarskap, virkað mjög vel saman. Við höfum alltaf lagt áherslu á það að reynsla fólks með geðraskanir skipti miklu máli. Við höfum verið áberandi í kerfinu með þessi gildi og náð gríðarlega góðum árangri. Það er ekki síst vegna þess að við höfum getað boðið upp á aðstoð bæði frá fagfólki og fólki sem hefur reynt geðraskanir á eigin skinni,“ segir Auður. Í ályktun Sameinuðu þjóðanna um geðheilbrigðismál er lögð áhersla á nálgun eins og GET hefur þróað, opna persónulega þjónustu sem einstaklingar geta leitað á eigin forsendum. „Því finnst mér skref stigið aftur á bak og valmöguleikum í þjónustu fækkað.“

Með því að leggja niður teymið tapast ekki aðeins mikil og dýrmæt reynsla, heldur líka opið úrræði, að sögn Auðar. „Við erum stærsta úrræðið á Íslandi sem er með opna endurhæfingu sem sinnt er af fagfólki og notendum í samvinnu. Hingað getur fólk komið inn af götunni, án þess að vera með greiningu, en við erum mikið til að sinna hópi sem á erfitt með að fara í aðra hefðbundna endurhæfingu, eins og til dæmis hjá Virk eða starfsendurhæfingarstöðvum.“

Nær væri að fjölga

Til teymisins leitar bæði fólk sem hefur verið veikt lengi og fólk sem hefur dottið út úr sinni rútínu tímabundið vegna veikinda. „Það mun stór hópur líða fyrir þessa ákvörðun. Hvert á það fólk að fara sem kýs þessa batanálgun? Þetta mun hægja á bataferli og jafnvel í einhverjum tilvikum leiða til alvarlegs bakslags í bata. Það tekur langan tíma að byggja upp traust og þekkingu notenda á úrræðum.“

Að sögn Auðar hefur reynslan sýnt að hugmyndafræði og aðferðir GET henta vel þeim fjölda einstaklinga sem hefur nýtt sér þjónustuna til bata og aukinnar þátttöku í samfélaginu og árangur af starfinu sé óumdeildur. Nú er unnið að frekari rannsóknum á árangri teymisins og eru til dæmis tvær meistararitgerðir væntanlegar frá Háskóla Íslands um starf þess.

Greinin birtist í heild í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

„Við viljum varðveita þetta konsept og munum berjast fyrir því …
„Við viljum varðveita þetta konsept og munum berjast fyrir því að staðsetja teymið annars staðar," segir Auður Axelsdóttir. Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert