Vilja banna 4.000 efni í húðflúrlitum

Í mörgum tilfellum eru efnin nú þegar bönnuð í snyrtivörum …
Í mörgum tilfellum eru efnin nú þegar bönnuð í snyrtivörum og geta verið krabbameinsvaldandi. AFP

Evrópska efnafræðistofnunin (ECHA) hefur gert úttekt á þeirri áhættu sem fylgir notkun litarefna í húðflúrum, sem og komið með tillögur um þau efni sem nauðsynlegt er að verði bönnuð í húðflúrlitum þannig að þeir séu öruggir fyrir líf og heilsu neytenda. Var úttektin gerð vegna tilskipunar framkvæmdastjórnar ESB vegna þess að ekki voru til samræmdar reglur.

Skýrslan er nú tilbúin og í henni er að finna tillögur um að banna um 4.000 efni, sem í mörgum tilfellum eru nú þegar bönnuð í snyrtivörum og geta verið krabbameinsvaldandi eða valdið alvarlegri ertingu á húð.

Flest þessara efna eru nú þegar á lista í tilmælum ESB sem ekki eru lagalega bindandi fyrirmæli, en aðeins 7 EES-ríki hafa sett sérstök lög á grundvelli tilmælanna og bannað þessi efni.

ECHA hefur ákveðið að setja í opið umsagnarferli tillögur sínar, frá og með deginum í dag, og er umsagnafrestur 6 mánuðir eða til 20. júní 2018. Allir sem telja ástæðu til að koma á framfæri athugasemdum við tillögurnar geta gert það.

Að loknum umsagnarfresti mun ECHA afla umsagnar frá vísindanefnd efnafræðistofnunarinnar sem mun leggja mat á innkomnar athugasemdir og sjónarmið.

Neytendastofa vekur athygli innlendra aðila á umræddum tillögum og umsagnarferlinu en á undanförnum árum hafa ýmiss konar litarefni verið innkölluð í gegnum tilkynningakerfi ESB um hættulegar vörur.

Talið er að um 12 prósent neytenda á EES-svæðinu hafi fengið sér húðflúr og væntanlega helmingi fleiri á aldrinum 17 til 35 ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert