Óvænt heimsókn frá Símasplæsi

Mathilda Maj, níu ára íslensk stúlka í Kaupmannahöfn, ákvað að grípa til sinna eigin ráða og skrifa bréf, ekki til jólasveinsins heldur símafyrirtækis, þar sem hún óskar þess að fá iPhone í gjöf.

„Hún bað um iPhone 5S því hún átti iPhone 5S sem hún týndi fyrir tveimur árum og er ennþá mjög leið yfir því. Hún er búin að óska sér að fá iPhone í langan tíma en ekki fengið enn. Mamma mín stakk upp á því að hún skrifaði bréf til jólasveinsins og kannski myndi ósk hennar rætast,“ segir mamma Mathildu, Jóhanna Björg Christensen, en fjölskyldan hefur verið búsett í Danmörku í tvö og hálft ár.

„Hún settist niður og byrjaði að skrifa og teikna,“ segir hún og bætir við að amman hafi furðað sig á því að bréfið hafi verið stílað á YouSee og þótt jólasveinninn vera kallaður furðulegum nöfnum þarna í Danmörku. Það er hinsvegar aldeilis ekki svo því YouSee er stærsta símafyrirtækið þar í landi. „Hún ákvað bara að klippa út milliliðinn og fara beint í YouSee og var viss um að það myndi virka betur. Jólasveinninn þyrfti hvort eð er að fara þangað,“ segir Jóhanna Björg.

„Hún fór með bréfið í búð YouSee nálægt okkur og þeim fannst þetta svo krúttlegt að þetta fer alla leið í efstu stjórn hjá þeim. Þeir hringdu svo í okkur í byrjun vikunnar og sögðu að forstjórinn hjá YouSee hefði ákveðið að gefa henni síma og hann sendi verslunarstjórann í búðinni í jólasveinabúning hingað og forstjórinn kom líka og fleiri starfsmenn og gáfu henni síma,“ segir Jóhanna Björg, þannig að jólaóskir geta sannarlega ræst.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert