Páll Hreinsson forseti EFTA-dómstólsins

Páll Hreinsson, forseti EFTA-dómstólsins.
Páll Hreinsson, forseti EFTA-dómstólsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Páll Hreinsson tók við sem forseti EFTA-dómstólsins 1. janúar en dómarar við dómstólinn völdu Pál til starfans á fundi sínum 14. nóvember. Hann gegnir embættinu til ársloka 2020.

Páll var skipaður dómari við EFTA-dómstólinn árið 2011 er hann tók við af Þorgeiri Örlygssyni sem þá sneri aftur í Hæstarétt. Páll hefur verið í leyfi frá Hæstarétti síðan haustið 2011 en hætti hjá dómstólnum í haust eftir að hafa verið í leyfi í sex ár. 

Páll Hreinsson er fæddur 20. febrúar 1963. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1983, embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands 1988, lagði stund á framhaldsnám í stjórnsýslurétti og stjórnsýslufræðum við Hafnarháskóla 1990- 1991 og lauk doktorsprófi (dr. juris) frá Háskóla Íslands 5. febrúar 2005.

Páll var fulltrúi yfirborgardómarans í Reykjavík 1988-1991 og aðstoðarmaður umboðsmanns Alþingis frá 1991-1998. Hann hóf störf sem stundakennari við lagadeild Háskóla Íslands á haustmisseri 1989 og starfaði sem slíkur til ársins 1996

. Árið 1996 var hann skipaður aðjúnkt við sömu deild, ráðinn dósent frá september 1997 og prófessor frá ágúst 1999. Páll var skipaður formaður tölvunefndar 1. september 1999 og var skipaður formaður stjórnar Persónuverndar 2001. Hann var varaforseti lagadeildar frá 1. júlí 2002 til 30. júní 2005 og forseti deildarinnar 1. júlí 2005 til 1. september 2007, er hann tók við skipun í embætti hæstaréttardómara. Hann var skipaður formaður rannsóknarnefndar Alþingis  um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdum atburðum, og var í leyfi frá störfum hæstaréttardómara meðan nefndin starfaði. Hann sneri síðan aftur í Hæstarétt 2010 og starfaði við dóminn þangað til hann fór í leyfi 15. september 2011. 

Páll Hreinsson hefur gefið út 13 bækur og 42 greinar um lögfræðileg málefni. Síðasta verkefni hans hér á landi var að sitja í íslenskri rannsóknarnefnd varðandi plastbarkamálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert