Ræða um breytta hjólfaradýpt

Á Vesturlandsvegi er djúp rák sem myndast hefur vegna slits …
Á Vesturlandsvegi er djúp rák sem myndast hefur vegna slits á götunni og skapar mikla hættu. Vegagerðin skoðar að breyta reglum um hámarks dýpt hjólfara. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Vegagerðin hefur til skoðunar að breyta verklagsreglum hjá sér um hámarksdýpt hjólfara en leyfileg hámarksdýpt er í dag 50 mm. Vegagerðin breytti reglum hjá sér vegna niðurskurðar í fjárlögum eftir efnahagshrun árið 2008 og hafa reglurnar staðið óbreyttar síðan. Fyrir þann tíma var miðað við 20 mm.

Birkir Hrafn Jóakimsson, verkefnastjóri viðhalds bundinna slitlaga hjá Vegagerðinni, segir það vera til skoðunar að breyta verklagsreglum Vegagerðarinnar um hámarksdýpt hjólfara nú þegar efni leyfa. „Það hefur verið rætt um að endurskoða þessa 50 mm, það þurfti að breyta þessu á sínum tíma. Þetta var spurning um forgangsröðun,“ segir Birkir Hrafn.

Nýr mælibíll tekinn í notkun fljótlega

Fjallað var um það í fréttum fyrr í vikunni að ástand Vesturlandsvegar væri víða slæmt og dýpt hjólfæra væri sums staðar á bilinu 28-34 mm. Birkir segir að ráðist verði í viðgerðir á veginum í sumar, en útfærsla viðgerðarinnar ráðist ekki fyrr en framtíð breikkunar Vesturlandsvegar liggi fyrir.

Birkir Hrafn Jóakimsson, byggingaverkfræðingur.
Birkir Hrafn Jóakimsson, byggingaverkfræðingur. mbl.is/Árni Sæberg

Það sem helst veldur hjólförum í vegum er þungaumferð á sumrin, þar sem malbikið sígur og skríður, og slit af völdum nagladekkja. Þá geta undirstöður vega gefið sig undir mikilli áraun. Að sögn Birkis Hrafns hefur Vegagerðin nýlega tekið í notkun sterkara malbik sem eykur styrkinn og þolir þungaumferð betur á vegunum.

Þá verður fljótlega tekinn í notkun nýr mælibíll hjá Vegagerðinni, svokallaður veggreinir,  sem mælir yfirborð vega með laser. Greinir bíllinn þannig ástand vega, hjólför og holur og verður grunnur að öllu vegaviðhaldi Vegagerðarinnar. Leysir hann af hólmi sjónmat og kemst hraðar yfir en áður hefur þekkst hjá Vegagerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert