Vilja leyfa heimabrugg til einkaneyslu

í greinargerð frumvarpsins segir að færa megi rök fyrir því …
í greinargerð frumvarpsins segir að færa megi rök fyrir því að lagabókstafurinn sé í raun dauður. AFP

Þingmenn úr röðum Pírata, Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar leggja fram frumvarp um afnám banns við heimabruggun til einkaneyslu.

Í greinargerð með frumvarpinu er bent á að áfengisneysla sé rótgróinn hluti af íslenskri menningu og að framleiðsla áfengis til einkaneyslu hafi lengi tíðkast mjög víða í samfélaginu. Þrátt fyrir það hafi ekki verið verið áberandi áhugi meðal almennings að tekið væri á brotunum. Þvert á móti hafi á undanförnum árum orðið til rík menning heimabruggunar, en athygli veki að fólk sem stundi hana geri enga tilraun til að fela hana.

Jafnframt er bent á að Fágun, félag áhugafólks um gerjun, starfi fyrir opnum tjöldum, haldi auglýsta viðburði, hafi fengið fréttaumfjöllun og sent umsögn til Alþingis um frumvarp um breytingu á sölufyrirkomulagi áfengis og jafnframt komið á fund allsherjar- og menntamálnefndar til að ræða þá umsögn.

„Það er því óhætt að fullyrða að allnokkur hópur fólks stundi framleiðslu áfengis til einkaneyslu án þess að hafa áhyggjur af framfylgd laganna þegar um einkaneyslu er að ræða. Með hliðsjón af háum refsiramma virðist reyndar vera lítil meðvitund um að athæfið sé yfirleitt bannað. Þætti verknaðurinn hneykslanlegur eða brjóta í bága við almannahagsmuni mætti ætla að slík viðhorf kæmu fram í almennri umræðu um áfengismál, en svo er ekki,“ segir í greinargerðinni.

Þar er einnig tekið fram að síðustu ár hafi rutt sér til rúms fjölmargar nýjar tegundir af íslenskum bjór og að forvitni og áhugi ferðamanna á bjórnum hafi aukist samhliða.
„Óumdeilt þykir meðal þeirra sem til þekkja að heimabruggun eigi ríkan þátt í því að svo margar nýjar gerðir bjórs hafi komið fram á undanförnum árum og öðlast vinsældir. Það skýtur skökku við að vaxtarbroddur íslenskrar bjórmenningar og sú jákvæða ímynd sem tekist hefur að afla íslenskum bjór hvað varðar gæði, grundvallist í reynd á afbroti sem þung refsing liggur við.“

Í greinargerðinni segir að þrátt fyrir að færa megi rök fyrir því að sá hluti ákvæðis í lögum sem banni framleiðslu áfengis til einkaneyslu sé í raun dauður lagabókstafur, þá sé ákvæðið enn í lögum og mjög skýrt í þokkabót.

„Lítil almenn meðvitund um bannið, ásamt þeirri staðreynd að athæfið er hvort tveggja samfélagslega viðurkennt og viðgengst enn fremur óáreitt, veikir hins vegar stöðu borgarans gagnvart geðþóttaákvörðunum yfirvalda. Erfitt er að sjá fyrir fram hvaða afleiðingar það hefði fyrir þá einstaklinga sem framleiða áfengi til einkaneyslu ef yfirvöld tækju skyndilega upp á því að framfylgja banninu.“

Flutningsmenn frumvarpsins eru Píratarnir Helgi Hrafn Gunnarsson Pírati, Olga Margrét Cilia, Halldóra Mogensen, Jón Þór Ólafsson, Björn Leví Gunnarsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, og Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert