„Loksins kom vantrauststillagan“

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra sagðist hafa fylgt lagabókstafnum í einu og …
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra sagðist hafa fylgt lagabókstafnum í einu og öllu við skipan dómara í Landsrétt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lagaákvæði um Landsrétt eru ekki mörg en alveg skýr og ráðherra fylgdi lagabókstafnum í einu og öllu, sagði Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra, er hún tók til máls í umræðu um vantrauststillögu Samfylkingar og Pírata í hennar garð.

„Loksins kom vantrauststillagan sem stjórnarandstaðan hefur boðað mánuðum saman,“ sagði Sigríður og bætti við að systurflokkarnir Píratar og Samfylkingin hafi þó verið einir um að láta hafa sig í að leggja hana fram.

„Ráðherra fylgdi lagabókstafnum í einu og öllu. Lagaákvæðin eru ekki mörg, en alveg skýr,“ sagði Sigríður. Hæfnisnefnd leggi fram tillögur sem ráðherra geti vikið frá og þingið hafi samþykkt tillögur sínar á síðasta þingi.

„Eins og menn þekkja þá var mikið ákall um það að Landsréttur yrði skipaður jafnt konum sem körlum. Þetta kom fram þegar að niðurstaðan lá fyrir.“ Sagðist Sigríður þá hafa metið það svo að nefndin hefði ekki gefið dómarareynslu nægt vægi í mati sínu og því hefðu níu reyndir félagsdómarar bæst við hópinn sem nefndin taldi hæfasta og hópur sinn því verið frábrugðin mati nefndarinnar um fjóra einstaklinga.

Biðst velvirðingar að það hafi gerst á minni vakt

„Þessir einstaklingar höfðu verið nefndir hæfir þegar þeir voru skipaðir héraðsdómarar,“ bætti hún við og sagði að með breytingunni hefði jafnast út hlutur karla og kvenna í Landsrétti.

„Mér segir svo hugur að aldrei hafi jafnmikilvæg stofnun verið sett á fót hér á landi í lýðveldissögunni með jöfnum hlut karla og kvenna,“ sagði Sigríður.

„Ég biðst velvirðingar að það hafi gerst á minni vakt og án þess að vísað væri til kynjakvóta.“ 

Það sé fordæmalaust og trúlega einstakur atburður að 15 dómarar séu skipaðir í einu. Hún hafi því innt af hendi viðamikla rannsókn sem hafi náð til umsagna dómnefndar, vægis stigagjafar, andmæla umsækjenda og ráðgjafa bæði innan og utan stjórnarráðsins. Þá hafi hún einnig horft til laga og reglna, lögskýringa og sjónarmiða þingmanna.

„Ég taldi mig hafa rannsakað málið nægjanlega,“ sagði Sigríður og kvaðst frábiðja sér allan málflutning á þingi um að hún hafi með ásetningi ætlað sér að valda dómstólum skaða með þessum hætti.

Í minnum haft hvernig menn greiða atkvæði

Ráðherra hafi ekki síðasta orðið um túlkun lagareglna og því sé hér á ferðinni misskilningur um þrískiptingu ríkisvalds. „Það kemur fyrir að niðurstaða stjórnvalds er borin undir dómsvald,“ sagði Sigríður og kvað dómstóla stundum dæma löggjafarvaldinu í óhag. Dómstólar séu líka stundum ósammála innbyrðis. 

„Þetta er réttarríkið að verki og við höfum komið okkur saman um að una niðurstöðu þess. Þetta eru hins vegar þingmenn sem ekki vilji una niðurstöðu dómstóla. Þeir hafa reynt að kreista ábót út á hana víða,“ sagði Sigríður.

Vantrauststillagan sýni að valdið til að skipa dómara eigi að vera hjá ráðherra, ekki hjá andlitslausri nefnd, því að ráðherra sé hægt að draga til ábyrgðar.

„Ég mun ekki greiða atkvæði með tillögunni hér á eftir,“ sagði Sigríður en bætti við að það yrði í minnum haft hvernig þingmenn muni greiða atkvæði um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert