„Ertu ekki taílensk?“

Íris Kristjana hefur ítrekað orðið fyrir fordómum á Íslandi.
Íris Kristjana hefur ítrekað orðið fyrir fordómum á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

„Á mér virkilega að finnast óþægilegt að labba úti á götunum hér á Íslandi því ég er hrædd við að fólk dæmi mig því það sést á útliti mínu að ég er ekki alveg íslensk?“ Spyr Íris Kristjana Stefánsdóttir sem hefur ítrekað orðið fyrir kynþáttafordómum á Íslandi.

„Haltu þig við þinn eigin kynþátt“

Íris var úti að skemmta sér ásamt kærasta sínum á laugardagskvöldi. Þau voru á göngu upp Laugaveginn þegar þau mættu manni sem fann sig knúinn til þess að kalla þau ljótt par. Þau stoppuðu og spurðu hvað honum gengi til.

„Þá segir hann við mig: „Ertu ekki taílensk?“ Og ég segi: „Nei, ég er íslensk“. Þá segir hann við mig: „Nei, þú ert asísk,“ bendir svo á kærastann minn og segir: „Ert þú ekki Íslendingur? Stick with your own race (haltu þig við þinn eigin kynþátt).“

Íris ásamt kærasta sínum Gunnari Birgissyni.
Íris ásamt kærasta sínum Gunnari Birgissyni. Ljósmynd/Aðsend

Finnst hún óvelkomin í eigin landi

Þegar maðurinn labbaði í burtu sagðist hann vera stoltur rasisti. „Við vorum ekki einu sinni að horfa á hann eða neitt, hann bara sagði við okkur þegar hann labbaði framhjá okkur að við værum ljótt par. Ég bara skil ekki til hvers að vera að þessu,“ segir Íris í samtali við mbl.is.

„Ég tók þetta virkilega nærri mér og get ekki hætt að hugsa um þetta. Þetta er alls ekki í fyrsta skipti sem mér líður eins og að ég sé ekki velkomin hér á landi þótt ég eigi íslenskan pabba og sé fædd og uppalin á Íslandi.“

Íris segir atvikið vera það versta sem hún hafi lent í til þessa. Hún hefur lengi unnið við afgreiðslustörf og minnist annars atviks þar sem hún varð fyrir fordómum. „Eitt sinn var ég að afgreiða gamlan mann og það voru mikil læti því það var mikið að gera. Ég sagði „ha“ og þá sagði hann: „Talarðu ekki íslensku eða?“ Ég táraðist næstum því en ég hélt því inni í mér.“

Stolt af því að vera Íslendingur

Íris er fædd og uppalin á Íslandi. Faðir hennar er íslenskur og móðir hennar frá Filippseyjum. „Ég er mjög stolt af því að vera Íslendingur og ánægð að hafa fæðst hér,“ segir hún.

„Þetta er mjög leiðinlegt, bara því ég lít út fyrir að vera asísk þá er komið svona fram við mig.“

Hún minnist þess ekki að hafa orðið fyrir fordómum þegar hún bjó á Laugarvatni á grunnskólaárunum. Þegar hún byrjaði í menntaskóla hafi hún byrjað að finna fyrir þeim. „Ég tók það ekkert mjög mikið inn á mig þá, ég bara grínaðist með krökkunum um þetta. En þegar það kemur einhver til manns manns sem maður þekkir ekki og er að segja eitthvað svona þá er það svolítið særandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert