Kjararáð grundvöllur reiðinnar

Styrmir Gunnarsson.
Styrmir Gunnarsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég held það sé engin spurning. Það er eitthvað að gerast í verkalýðshreyfingunni. Það má kalla þetta kynslóðaskipti, þar sem ungt fólk er að koma inn með breytt viðhorf.“ Þetta sagði Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, í þættinum Silfrið á RÚV í hádeginu.

Styrmir sagðist ekki telja að óánægja með kjör væri meginástæðan fyrir óróa innan verkalýðshreyfingarinnar, þótt full ástæða væri til, heldur hræringar í samfélaginu almennt. Sagði hann fámenna hópa í samfélaginu nýta sér aðstöðu sína til að taka til sín meira en aðrir hafa möguleika á. Sagði hann kjararáð bera þar mesta ábyrgð. Það væri grundvöllurinn að þeirri reiði sem væri til staðar í íslensku samfélagi.

Tímabær endurnýjun innan verkalýðshreyfingarinnar

Aðspurður sagði Styrmir uppstokkun í verkalýðshreyfingunni geta verið ávísun á harðari verkalýðsbaráttu, en það ráðist þó af því hvort ríkisstjórnin hafi vit á að bregðast við strax. Andrés Magnússon blaðamaður, Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, og Gunnar Smári Egilsson voru einnig gestir þáttarins og voru þau sammála um að úrskurðir kjararáðs spilltu friði á vinnumarkaði.

Andrés sagði ákall eftir breytingum hjá verkalýðhreyfingunni þó ekki eiga að koma á óvart, enda hafi stöðnun ríkt innan verkalýðshreyfingarinnar undanfarin ár. Miklar breytingar hafi orðið á samfélaginu í kjölfar bankahrunsins, en svo virtist sem verkalýðshreyfingin hefði verið undanskilin því. Nú virtist sem breytingar væru að verða og nýtt fólk að koma inn með nýjar hugmyndir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert