Leyndur galli í lóð í Vesturbænum

Keilugrandi 1. SÍF-skemman rifin. Ekki reyndist unnt að nota púða …
Keilugrandi 1. SÍF-skemman rifin. Ekki reyndist unnt að nota púða undir húsinu eins og til stóð. Þá komu í ljós gamlir sorphaugar Reykvíkinga. mbl.is/RAX

Borgarráð hefur samþykkt að veita Búseta 50 milljón króna afslátt af kaupverði lóðarinnar Keilugranda 1 í Vesturbænum. Borgin úthlutaði Búseta lóðinni í mars 2017 og var heildarupphæð byggingarréttar og gatnagerðargjalda rúmar 400 milljónir króna. Búseti hyggst reisa fjögur hús á lóðinni sem verða tveggja til fimm hæða með 78 íbúðum.

Íbúðirnar verða af fjölbreyttum stærðum og gerðum, allt frá 40 fermetra smáíbúðum upp í 125 fermetra 4 til 5 herbergja íbúðir.

Ástæðan fyrir afslættinum er sú að þegar SÍF-skemman, sem áður stóð á lóðinni, var rifin kom í ljós leyndur galli. Púði sem var undir húsinu og byggja átti ofan á reyndist ónothæfur. Jarðvegur reyndist mengaður enda gamlir sorphaugar á þessu svæði.

Í stað þess að fjarlægja jarðveginn var sú ákvörðun tekin að byggingar yrðu grundaðar á forsteyptum súlum, eins og fram kom í frétt í Morgunblaðinu í vikunni. Var þetta gert til að lágmarka áhættu og kostnað af því að fjarlægja jarðveginn. Greiðir Reykjavíkurborg helming af umræddum grundunarkostnaði. Langt er niður á fast berg á þessu svæði, eða átta metrar að meðaltali.

Jafnframt samdi Reykjavíkurborg við Búseta um frágang á lóðinni og að búa hana leiktækjum, en hluti hennar telst borgarland. Þarna á að vera lýðheilsureitur, alls 860 fermetrar. Búseti tekur að sér að annast rekstur og viðhald svæðisins næstu 25 árin. Fær Búseti greiddar tæpar 40 milljónir fyrir frágang og rekstur borgarlandsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert