Gagnrýnir íslensk stjórnvöld

Talið er að Haukur Hilmarsson hafi fallið í átökum við …
Talið er að Haukur Hilmarsson hafi fallið í átökum við tyrk­neska her­inn í Afr­in-héraði í Sýr­landi í fe­brú­ar. Ljósmynd/Aðsend

„Við erum ekki neinu nær,“ sagði Eva Hauksdóttir, móðir Hauks Hilmarssonar, þegar hún var spurð hvort örlög sonar hennar hefðu skýrst frá því aðstandendur fengu fyrst fregnir af andláti hans. Rætt var við Evu í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Hún sagði að íslenskir stjórnmálamenn hefðu sýnt aðstandendum Hauks persónulega samúð. Eva gagnrýnir stjórnvöld fyrir að hafa ekki gripið til pólitískra viðbragða vegna framgöngu Tyrkja og Rússa í stríðinu í Sýrlandi.

„Við erum í rauninni í kannski verri aðstæðum en fyrstu dagana því við erum búin að fá svo margar misvísandi sögur,“ sagði Eva. Hún telur mestar líkur á því að Haukur hafi látist en heldur í vonarneista á meðan ekkert lík sé til staðar.

Eva Hauksdóttir.
Eva Hauksdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Eva sagðist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með viðbrögð íslenska stjórnvalda þegar byrjað var að grennslast fyrir um Hauk en 12. mars komst hún að því að ekki hafði verið haft beint samband við stjórnvöld í Tyrklandi. Það hafi að einhverju leyti skýrst af reynsluleysi stjórnvalda og síðar hafi verið haft beint samband við Tyrki.

Hafa þau nokkurn áhuga á pólitík?

„Það hefur ekki heyrst bofs frá ríkisstjórninni, hvorki um ábyrgð Rússa á stríðinu í Sýrlandi, eða þessa viðbjóðslegu framgöngu Tyrkja gegn Kúrdum,“ sagði Eva og bætti við að hún hefði haldið að það myndi aðeins ýta við fólki þegar íslenskur ríkisborgari er sagður hafa fallið fyrir vopnum bandamanna Íslands.

„Maður veltir fyrir sér hvort þetta fólk hafi nokkurn áhuga á pólitík, hvað þá alþjóðamálum. Eru þau þá ekki bara í pólitík til að sinna einhverri hagsmunagæslu?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert