Hlutfallsleg eign gefur ranga mynd

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Hlutfallsleg eign sýnir ekki endilega myndina nákvæmlega eins og hún er. Til dæmis var eigið fé 45% sem áttu minnst bundið í fasteign sem þá var neikvætt um 20-25 milljarða króna en í árslok 2016 er sú eign orðin jákvæð um 263 milljarða króna. Þetta er hin raunverulega ástæða fyrir þessari eignaaukningu hjá þorra þjóðarinnar.“

Þetta segir Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is í tilefni af svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við skriflegri fyrirspurn hans um eignir og tekjur landsmanna. Þar kemur fram að eigið fé ríkasta 0,1% þjóðarinnar hafi verið rúmlega 201 milljarður árið 2016 og aukist um 14 milljarða frá árinu á undan. Eignir þeirra hafi hins vegar lækkað úr 6,7% í 6,3% sem hlutfall af heildareign landsmanna.

Húsnæðisverð hafi þannig tvöfaldast frá árinu 2010. „Það sem er hins vegar athyglisvert þegra horft er á krónutöluna er það að hinn nýi auður sem hefur orðið til, sem hefur gerst með stækkun kökunnar sem vissulega hefur orðið, hann er allur að dreifast á tiltölulega fámennan hóp.“ Logi segir að þarna spili hækkun hlutafjár stóra rullu.

„Verðbréf í landinu eru að mestu í höndum þessa fólks. Síðan eru þessar tölur allar á nafnverði en markaðsvirði þessara eigna er væntanlega miklu hærra. Tíu ríkustu prósentin eiga hlutabréf í erlendum og innlendum félögum sem metin eru á 383 milljarða króna að nafnvirði en hin 90% þjóðarinnar eiga verðbréf sem metin eru á 62 milljarða. Hlutfallstalan segir þannig ekkert söguna um þetta nýja fé sem fólk er að eignast.“

Logi segir aðspurður að vissulega sé ástæðan sú að fólk hafi fjárfest og tekið áhættu. Hann geri ekki ágreining um að sitt sýnist hverjum um það. „En ég bara bendi á að ef við viljum ekki sjá þessa þróun og ef við sem teljum að hún sé á endanum slæm þá þarf einhvern veginn að bregðast við og meta hvaða aðgerða sé hægt að grípa til.“

Þá gagnrýnir Logi Vinstrihreyfinguna - grænt framboð fyrir að standa að aðgerðum í ríkisstjórn sem miði að því að bæta hag þessa fámenna hóps fremur en þeirra sem minnstar hafi tekjurnar. Það komi á óvart að flokkur, sem sé nokkurn veginn samstíga Samfylkingunni í velferðarmálum, skuli standa að slíkum aðgerðum. Það komi hins vegar ekki á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn geri það í ljósi stefnu sinnar í þeim efnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert