„Komdu með annan segi ég nú bara“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Á myndinni sést einnig Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Á myndinni sést einnig Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er nú bara með gátu og það er hversu mörgum rangfærslum er hægt að koma fyrir á tveimur mínútum því ég held að háttvirtur þingmaður Birgir Þórarinsson hafi slegið nú einhvers konar met hér í þessari svokölluðu fyrirspurn. Ríkisstjórn vogunarsjóðanna? Komdu með annan háttvirtur þingmaður segi ég nú bara.“

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni, þingmanni Miðflokksins, þar sem hann gagnrýndi fjármálaáætlun ríkisstjórnar hennar fyrir að ætla að lækka sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki og þar með lækka skatta á vogunarsjóðina sem eiga Arion banka um tvo milljarða króna. Það bættist við ákvörðunina um að selja hlut ríkisins í bankanum á undirverði. Á sama tíma væri ekki hægt að afnema krónu á móti krónu skerðingar hjá öryrkjum.

Katrín benti á að sérstaka skattinum á fjármálafyrirtæki hefði verið komið á tímabundið á sínum tíma. Hann hefði verið nýttur af ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins til þess að fjármagna hina svokölluðu leiðréttingu húsnæðislána. Skatturinn hefði skilað níu sinnum meira fjármagni í ríkissjóð en gert hafi verið ráð fyrir í byrjun.

Forsætisrtáðhertra benti einnig á að salan á hlut ríkissins í Arion banka væri í samræmi við samkomulag frá 2009 sem síðan hefði verið staðfest í stöðugleikaskilyrðunum sem sett hefðu verið af ríkisstjórninni sem formaður Miðflokksins hefði farið fyrir. 

Hvað kjör öryrkja varðaði sagði Katrín að fram kæmi í texta fjármálaáætlunarinnar að til stæði að afnema krónu á móti krónu skerðingar. Það hefði einnig komið fram í máli Ásmundar Einars Daðasonar félagsmálaráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert