Lýðræðið látið undan síga hér á landi

Sigmundur Davíð setti fyrsta landsþing Miðflokksins í morgun.
Sigmundur Davíð setti fyrsta landsþing Miðflokksins í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Yfirskrift þingsins er upphaf nýrra tíma og það er vel við hæfi af því við ætlum að innleiða nýja tíma í íslenskum stjórnmálum,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður í setningarræðu sinni á fyrsta landsþingi Miðflokksins sem haldið er um helgina.

Í setningarræðunni vildi hann nota tækifærið og ræða um stöðuna í stjórnmálum nú um stundir. Hann sagði miklar breytingar kalla á viðbrögð stjórnmálamanna, og að bestu viðbrögðin væru að endurvekja virkni lýðræðisins.

Sigmundur Davíð sagði að hér á landi hefði lýðræðið látið undan síga og að kjósendur væru farnir að taka eftir því að ekki skipti máli hvaða flokkur væri kosinn. „Niðurstaðan er æ oftar stjórnarmyndun um stólaskipti þar sem stjórnmálamenn fallast á að gefa eftir helstu áherslumál sín, helstu kosningaloforð gegn því að samstarfsflokkarnir geri slíkt hið sama. Kerfinu er svo eftirlátið að stjórna.“

Fjölmargir hlýddu á ræðu Sigmundar Davíðs í morgun.
Fjölmargir hlýddu á ræðu Sigmundar Davíðs í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann tók svo fjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar til umræðu, og sagði ríkisstjórnina stefna á að eyða miklum peningum, fjármagni sem varð til með markvissri stefnu, og að því fylgdi engin sýn um það hvernig ætti að halda áfram efnahagslegri uppbyggingu.

„Hugmyndin virðist vera sú að það sé óhætt að hætta að róa, báturinn muni áfram færast í sömu átt. En þegar það gerist er ekki aðeins er hætta á að báturinn staðnæmist, straumurinn mun bera hann með sér, jafnvel upp á sker.“

Við þessu segir hann Miðflokkinn ætla að bregðast við með skýrri sýn á framtíðina, með því að leggja fram lausnir og með því að endurvekja það besta í lýðræðishugsjóninni.

Á 100 ára afmæli fullveldisins sagði hann ekki veita af því að verja fullveldið, en að að því hefði verið sótt undanfarið, með reglugerðum erlendis frá og erlendum vogunarsjóðum sem ráða för á íslenskum fjármálamarkaði.

„En fyrst og fremst þurfum við að verja það sem krafan um fullveldi fól raunverulega í sér. Það að íslenskur almenningur, hver einasti borgari landsins fengi rétt, og jafnan rétt, til að ákveða hvernig samfélaginu okkar skyldi stjórnað.“

mbl.is/Kristinn Magnússon
Gunnar Bragi Sveinsson býður sig fram sem varaformaður Miðflokksins.
Gunnar Bragi Sveinsson býður sig fram sem varaformaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon
Sigurður Þ. Ragnarsson, oddviti Miðflokksins í Hafnarfirði.
Sigurður Þ. Ragnarsson, oddviti Miðflokksins í Hafnarfirði. mbl.is/Kristinn Magnússon
Geir Þorsteinsson, oddviti Miðflokksins í Kópavogi.
Geir Þorsteinsson, oddviti Miðflokksins í Kópavogi. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka