Heil miðlína stöðvi framúrakstur

Þingvallavegur.
Þingvallavegur. mbl.is/Sigurður Bogi

Í minnisblaði Eflu verkfræðistofu vegna bætts umferðaröryggis á Þingvallavegi er lagt til að málaðar verði heilar kantlínur til að tryggja að ökumenn leggi ekki í vegkanti og að máluð verði heil miðlína til að koma í veg fyrir framúrakstur úr Mosfellsdalnum.

Minnisblaðið var lagt fram á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar í morgun.

Fram kemur í fundargerð að eitt helsta markmiðið sem var sett fram í deiluskipulagsvinnu fyrir Þingvallaveg í Mosfellsdal sé að bæta þar umferðaröryggi.

Mosfellsbær óskaði eftir hugmyndum að einföldum aðgerðum sem geta stuðlað að bættu umferðaröryggi strax, óháð því hvort deiliskipulagið sé samþykkt og komið til framkvæmda.

Á meðal ódýrra og einfaldra aðgerða sem verkfræðistofan leggur til er að mála heilar kantlínur til að tryggja að ökumenn leggi ekki í vegkanti. Fram kemur að vegurinn sé rúmlega 7 metra breiður og bjóði ekki upp á að lagt sé í vegkantinum.

Einnig er lagt til að mála heila miðlínu á veginum til að koma í veg fyrir framúrakstur.

„Íbúar upplifa að hraði ökutækja sé mismikill og því freistast ökumenn til þess að aka fram úr öðrum hægfara ökutækjum. Þar sem margar tengingar eru við veginn er það varasamt. Bann við framúrakstri dregur einnig úr hraðakstri framhjá þéttbýlinu,“ segir í minnisblaðinu.

Fram kemur að meðalhraði á veginum hafi lækkað, að mati íbúa á svæðinu. Ein ástæðan sem er nefnd er sú að Vegagerðin lét mála 70 á veginn á síðasta ári til að minna ökumenn á hámarkshraðann. Efla mælir með að viðhalda þeirri merkingu ef slíkt þurfi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert