Uppsöfnuð óánægja með störf Gylfa

Aðalsteinn Árni Baldursson.
Aðalsteinn Árni Baldursson. mbl.is/Sigurður Bogi

Framsýn stéttarfélag mun bera upp vantrauststillögu á Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ, á aðalfundi sínum í kvöld.

Að sögn Aðalsteins Baldurssonar, formanns Framsýnar, er ástæðan fyrir þessu uppsöfnuð óánægja með störf Gylfa.

„Kornið sem fyllti mælinn var þessi auglýsingaherferð þar sem varað er við kjarabaráttu okkar fólks. Að það eigi ekki að sækja fram kröfu með verkföllum eða átökum,“ segir Aðalsteinn. „Þetta hefur farið illa í okkar fólk.“

Framsýn bað um að umræddar auglýsingar yrðu teknar úr birtingu en ekki var orðið við því.

Aðalsteinn bætir við að ASÍ hafi áður verið með „svona áróður“ gegn stéttarfélaginu, eða allt frá því í kringum kjarasamningana 2013 til 2014.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Aðalsteinn segir út í hött að halda því fram að menn hafi verið með óraunhæfar kröfur í gegnum tíðina. Því til stuðnings bendir hann á launahækkun bæjarstjóra Kópavogs um 600 þúsund krónur á sama tíma og félagsmenn Framsýnar hafi fengið 230 þúsund króna hækkun á  20 ára tímabili.

„Það hefði verið eðlilegt ef þetta hefði verið á vegum SA [Samtaka atvinnulífsins],“ segir hann um auglýsingaherferðina. „Það er sérstakt að þetta skuli hafa verið kostað af ASÍ.“

VR lagði fram vantrauststillögu á Gylfa í síðasta mánuði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert