Tveggja km reiðvegur verði samþykktur

Lúpína við Vífilsstaðavatn.
Lúpína við Vífilsstaðavatn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bæjarráð Garðabæjar hefur lagt til við bæjarstjórn að samþykkja tillögu skipulagsnefndar um útgáfu á framkvæmdaleyfi fyrir rúmlega tveggja kílómetra langan reiðveg innan friðlands Vífilsstaðavatns.

Bréf Umhverfisstofnunar varðandi beiðni um framkvæmdaleyfi fyrir reiðvegi frá Kjóavöllum um Grunnuvatnaskarð að Vatnsásvegi var lagt fram á fundi bæjarráðs í gær.

Það var Halldór H. Halldórsson sem sótti um leyfið til Umhverfisstofnunar fyrir hönd hestamannafélagsins Spretts í lok apríl.

Fram kemur í lýsingu verkefnisins að sótt er um leyfi til að leggja 2.170 metra langan reiðveg frá Ellivaðavatnsvegi að línu- og reiðvegi um Vatnsás. Verða 1.270 metrar af heildarlengd vegarins á óröskuðu svæði og 900 metrar á línuvegi sem verður breikkaður úr 2,5 metrum í 4 metra. Breidd reiðstígsins er fjórir metrar, sem er samkvæmt deiliskipulagi.

Við framkvæmdina verður notuð lítil jarðýta, hjólagrafa, malarflutningabílar og valtari. Leggja þarf tvö ræsirör undir reiðstíginn og verða starfsmenn sex til átta.

Verði einhvers staðar opið sár á landinu eftir framkvæmdina verður það grætt upp.  

„Umhverfisstofnun metur, miðað við verkefnislýsingu, að verkið sé ekki líklegt til að hafa neikvæð áhrif á svæðið sé vandað til við frágang og gætt að mengunarvörnum vélknúinna tækja. Hluti leiðar fylgir áður röskuðu landi eftir línuvegi og svæði sem lúpína hefur lagt undir sig. Mun stígurinn auka möguleika hestamanna á að njóta útivistar á svæðinu,“ segir í bréfi stofnunarinnar þar sem leyfið fyrir reiðveginum er veitt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert