Foss í oss

Félagarnir hafa lagt mikið á sig til að mynda náttúruperlur …
Félagarnir hafa lagt mikið á sig til að mynda náttúruperlur í Árneshreppi. Hér sleppir Ólafur drónanum lausum. Rax / Ragnar Axelsson

„Við vissum að einhverjir myndu segja okkur til syndanna en eina leiðin til að vekja athygli á málinu er að útsetja sig og þess vegna var aldrei spurning að láta slag standa. Hinn valkosturinn var að gera ekki neitt.“

Þetta segir Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlæknir og náttúruverndarsinni, um baráttu þeirra Ólafs Más Björnssonar augnlæknis gegn áformum um Hvalárvirkjun í Árneshreppi.

Ólafur tekur undir það. „Hagsmunirnir eru of ríkir til að maður geti setið aðgerðalaus á hliðarlínunni. Þetta er okkar sannfæring.“

Og Tómas botnar þessa pælingu. „Það er ekki stór fylking sem hefur tekið að sér að brjóta ölduna. Ég veit að fleiri eru okkur sammála og hvet þá til að láta sig málið varða. Því fleiri brýnd sverð, þeim mun betra.“

Ekki eru allir þeim sammála. „Við höfum fundið fyrir reiði á Ísafirði, meðal annars á opnum fundi sem við héldum þar," segir Tómas. „Margir eru okkur ósammála og töluð var kjarnyrt íslenska á fundinum. Á móti kemur að fólk í bænum hefur líka komið að máli við okkur og þakkað fyrir framtakið. Það fólk vill hins vegar af einhverjum ástæðum ekki koma fram opinberlega. Það hefur komið okkur á óvart hvað fólk fyrir vestan er hrætt að tjá sig um málið.“

Fossinn Drynjandi í Hvalá í Árneshreppi. Ólafur og Tómas, sem …
Fossinn Drynjandi í Hvalá í Árneshreppi. Ólafur og Tómas, sem sjást efst til hægri á myndinni, telja hann með fallegustu fossum landsins og náttúruperlu á heimsmælikvarða. Fossinn er 77 metra hár, það er 3 m hærri en Hallgrímskirkja. Rax / Ragnar Axelsson

Félagarnir hafa verið óþreytandi að taka myndir í Árneshreppi og miðla til almennings; gáfu meðal annars út Fossadagatal fyrir jólin sem seldist upp, um 3.000 eintök. Ólafur og Tómas vísa í baráttuna gegn Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma en þá voru samfélagsmiðlar ekki komnir til sögunnar. „Ómar Ragnarsson og fleiri reyndu af veikum mætti að vekja athygli á tjóninu sem virkjunin kæmi til með að valda á náttúrunni en allt kom fyrir ekki. Lítið myndefni var til af því svæði og það höfðum við í huga nú þegar við hófum okkar baráttu gegn Hvalárvirkjun. Það er auðveldara fyrir fólk að taka afstöðu ef það þekkir á einhvern hátt til svæðisins, þó ekki sé nema af mynd,“ segir Tómas.

Og Ólafur bætir við: „Einhver þarf að tala máli náttúrunnar. Sem betur fer eru að verða kynslóðaskipti í hugsun; mun fleiri sýna náttúruvernd skilning en fyrir tíu til fimmtán árum og átta sig á því að verðmætin eru víða.“

Snýst ekki um hægri og vinstri

Þeir nefna listamenn í þessu sambandi og nærtækasta dæmið sé kvikmynd Benedikts Erlingssonar, Kona fer í stríð, sem nú er í kvikmyndahúsum. Þeim þykir myndin ákaflega vel heppnuð og þarft innlegg í umræðuna um náttúruvernd. Af öðrum listamönnum sem lagt hafa baráttunni ómetanlegt lið tilgreina þeir Ragnar Kjartansson myndlistarmann, Andra Snæ Magnason rithöfund, Björk Guðmundsdóttur söngkonu og Ragnar Axelsson ljósmyndara. „Þetta fólk hefur veitt okkur mikinn innblástur.“

Þá segja Tómas og Ólafur náttúruvernd löngu hætta að snúast um hægri og vinstri pólitík. „Einu sinni var það feimnismál hjá hægrimönnum að vilja vernda náttúruna. Sem betur fer er það liðin tíð; við þekkjum marga hægrimenn sem eru sama sinnis og við. Og vonandi eru vinstrimenn ekki að linast í afstöðu sinni en gárungarnir segja að „Vinstri græn“ séu orðin bara „Vinstri“ eftir að þau tóku sæti í ríkisstjórn,“ segir Ólafur og glottir.

Meiri stuðningur frá konum en körlum

„Síðan er það svo merkilegt,“ segir Tómas, „að ég upplifi iðulega meiri stuðning frá konum en körlum. Það er líklega engin tilviljun að það var kona sem verndaði Gullfoss á sínum tíma, Sigríður í Brattholti.“

Sjálfir segjast Ólafur og Tómas ekki vera öfgamenn, einungis raunsæismenn sem beri hagsmuni lands og þjóðar fyrir brjósti.

Ólafur og Tómas ferðast mikið saman um landið.
Ólafur og Tómas ferðast mikið saman um landið. Rax / Ragnar Axelsson

Náttúruáhugi Ólafs og Tómasar er ekki nýr af nálinni. Faðir þess síðarnefnda var jarðfræðingur og ferðaðist sonurinn með honum vítt og breitt um landið frá blautu barnsbeini, ekki síst um hálendið, sem faðirinn þekkti eins og lófann á sér. Ólafur var minna á hálendinu í bernsku en var á hinn bóginn sendur í sveit með kaupfélagsbílnum á vorin. „Mér leið ákaflega vel í sveitinni, þar sem ég drakk í mig náttúruna, eins og hún gerist best og ætlaði alltaf að verða kúabóndi. Ég saknaði náttúrunnar mest meðan ég var ytra í námi,“ segir Ólafur.

Tómas tekur undir þetta. „Það er svo mikils virði að upplifa þessa ósnortnu náttúru og víðáttu,“ segir hann en félagarnir viðurkenna að þeir verji svo að segja öllum sínum frítíma á fjöllum eða annars staðar úti í náttúrunni.

Nánar er rætt við Tómas og Ólaf í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.  

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert