Harma „tilhæfulausa gagnrýni“ Íslands

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja.
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja. AFP

Stjórnvöld Filippseyja fara ófögrum orðum um Ísland fyrir „hlutdræga og tilhæfulausa gagnrýni“. Tilefnið er ávarp sem fastafulltrúi Íslands hjá SÞ, Harald Aspelund, flutti á þriðjudag um ástand mannréttindamála á Filippseyjum fyrir hönd næstum fjörutíu aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna.

Frá þessu greinir ríkisfréttastöð Kína, Xinhua.

„Við hörmum að Ísland og nokkur önnur lönd hafi viðhaldið þessari afstöðu sinni þrátt fyrir boð okkar um að þau heimsæki Filippseyjar og kanni stöðu mannréttinda af hlutlægni,“ sagði utanríkisráðherra Filippseyja, Peter S. Cayetano, í yfirlýsingu eftir ávarp íslenska fastafulltrúans.

Peter Cayetano, utanríkisráðherra Filippseyja, til vinstri.
Peter Cayetano, utanríkisráðherra Filippseyja, til vinstri. AFP

Hafi ekki raunverulegan áhuga á sannleikanum

Harmaði Cayetano einnig sérstaklega að Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, hefði ekki þekkst persónulegt boð ráðherrans um heimsókn til höfuðborgarinnar Manila.

„Því miður þá lítur út fyrir að vinir okkar hafi ekki raunverulegan áhuga á að komast að sannleikanum, og vilji frekar reiða sig á þær villandi upplýsingar sem matreiddar eru ofan í þá frá aðilum sem hafa gert mannréttindi að vopni.“

Fastafulltrúi Filippseyja hjá SÞ, Evan Garcia, hefur þá gert lítið úr Íslandi og öðrum þeim ríkjum sem stóðu að baki ávarpinu. Benti hann á fjölda frétta af slæmri meðferð flóttafólks í löndunum.

Fram kemur á vef utanríkisráðuneytisins að Ísland hafi undanfarið ár verið í fararbroddi þeirra ríkja í mannréttindaráðinu sem áhyggjur hafa haft af stöðu mála á Filippseyjum, en þarlend stjórnvöld þykja meðal annars hafa beitt mjög harkalegum brögðum í baráttu sinni við útbreiðslu fíkniefna.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.

„Við munum ekki breyta stefnu okkar“

„Þetta kemur ekki á óvart. Þeir hafa gagnrýnt okkur áður, og stjórnvöld Sádi-Arabíu hafa gert það líka, fyrir framgöngu okkar í mannréttindaráði SÞ. Ég er fyrsti íslenski ráðherrann til að ávarpa mannréttindaráðið og hef gert það reglulega frá því ég tók við embætti,“ segir Guðlaugur Þór í samtali við mbl.is.

„Við munum ekki breyta stefnu okkar eða áherslum í mannréttindamálum þó við séum gagnrýnd fyrir að benda á það sem miður fer hjá viðkomandi ríkjum.“

Spurður út í ummæli Cayetano, þar sem hann segist harma sérstaklega að hinn íslenski kollegi hans hafi ekki viljað heimsækja Filippseyjar, segir Guðlaugur að það eigi ekki að skipta máli.

„Þetta snýst um að stjórnvöld landsins starfi með alþjóðasamtökum og veiti þeim aðgengi í landinu. Þetta snýst ekki um að ég sem ráðherra taki út einstök ríki, enda sér það hver maður að það gæti orðið erfitt fyrir mig að gera það, þar sem því miður er of mikið af mannréttindabrotum í heiminum til að íslenskur ráðherra geti tekið þau öll út.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert