„Enn ein atlagan að fjölmiðlafrelsi“

Fréttablaðið og 365 miðlar í Skaftahlíð.
Fréttablaðið og 365 miðlar í Skaftahlíð. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég lít svo á að þarna sé verið að takmarka upplýsingar um rannsóknir í nauðgunarmálum,“ segir Kristín Þorsteinsdóttir, fyrrum aðalritstjóri 365 miðla ehf., og er vonsvikin með dóm Hæstaréttar sem staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli tveggja manna gegn 365 og fjórum fréttamönnum miðilsins.

Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi Fréttablaðsins.
Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi Fréttablaðsins. mbl.is

„Mér finnst þetta vera enn ein atlagan að fjölmiðlafrelsi í landinu,“ segir Kristín. Málið varðar um­fjöll­un fréttamiðla 365 af ætluðum kyn­ferðis­brot­um mann­anna tveggja gegn tveim­ur kon­um sem áttu að hafa verið fram­in í októ­ber 2015. Mál mann­anna voru rann­sökuð en þau síðan felld niður. Héraðsdómur gerði fréttamönnunum fjórum, Nadine Guðrúnu Yag­hi, Heim­i Má Pét­urs­syni, Stefáni Rafni Sig­ur­björns­syni og Þór­hild­i Þor­kels­dótt­ur að greiða mönnunum skaðabætur. Þá voru nokkur ummæli þeirra dæmd dauð og ómerk. 

Kristín segir að sér þyki dómararnir þrír hafa tekið afstöðu með þeim sem kærðir voru í nauðgunarmálinu, en í dómnum segir meðal annars að í fámennu og opnu samfélagi eins og á Íslandi sé auðvelt að finna út hverjir eiga hlut að máli.

Mennirnir tveir voru bæði nafngreindir og myndir af þeim birtar á samfélagsmiðlum, en slíkt var ekki gert í fréttaflutningi 365 miðla af málinu. „Við birtum aldrei nöfn þeirra eða myndir af þeim. Mér finnst þessi dómur vera fullmikið á tilfinningalegum nótum.“

Dómur hæstaréttar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert