Framúrakstur bannaður í Mosfellsdal

Vegagerðin hyggst banna framúrakstur á hættulegum vegkafla í Mosfellsdal.
Vegagerðin hyggst banna framúrakstur á hættulegum vegkafla í Mosfellsdal. mbl.is/Árni Sæberg

Vegagerðin mun á næstunni banna framúrakstur á hættulegum kafla Þingvallavegar í Mosfellsdal. Þetta segir Jónas Snæbjörnsson, starfandi forstjóri Vegagerðarinnar.

„Það verður yfirfarin þarna miðlína þannig framúrakstur verði bannaður á þessu svæði, þ.e.a.s á leiðinni niður í dalinn. Síðan höfum við líka á undanförnum misserum fjölgað skiltum með hámarkshraða og yfirborðsmerkingum,“ segir Jónas.

Íbúar í Mosfellsdal hafa gert alvarlegar athugasemdir við vegaöryggi á Þingvallavegi, einkum á vegarkafla sem þar sem nokkur fjöldi afleggjara að bæjum liggur þétt saman. Kona lést í alvarlegu bílslysi á kaflanum á laugardag, en slysið varð við framúrakstur. 

Afleggjararnir liggi „óþægilega þétt“

„Þetta verður þessi kafli þar sem farið er framhjá öllum þessum afleggjurum. Þar munum við mála heila línu,“ segir Jónas. „Þeir liggja óþægilega þétt á þessum kafla. Í samstarfi við sveitarstjórn höfum við svo unnið að deiliskipulagi á svæðinu þar sem gert er ráð fyrir tveimur til þremur hringtorgum á veginum þannig það verði ekki þessar aukatengingar inn á veginn. Þetta er aftur á móti eitthvað sem hægt er að gera strax,“ segir hann.

Deiliskipulagið verður auglýst af fulltrúum sveitarfélagsins á næstu dögum að sögn Jónasar. „Síðan færi það eftir því hvernig samgönguáætlun verður afgreidd í haust, hvaða fjármuni við fengjum til að gera fyrsta hringtorgið. Þetta svæði er ofarlega í forgangi og búið að vera mikið í umræðunni. Deiliskipulagsvinnan hófst fyrir um þremur árum og er loksins að ljúka núna. Það eru samt mörg önnur svæði í forgangi, eins og það heitir, t.d. á Kjalarnesi,“ segir Jónas.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert