Orðin langþreytt á hraðakstri í Mosfellsdal

Þingvallavegur í Mosfellsdal, nærri staðnum þar sem banaslys átti sér …
Þingvallavegur í Mosfellsdal, nærri staðnum þar sem banaslys átti sér stað í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Þreyta er komin í íbúa Mosfellsdals vegna mikillar og hraðrar umferðar um svæðið, segir Jóhannes Hilmarsson, sem situr í stjórn Íbúasamtaka Mosfellsdals.

Íbúasamtökin hafa árum saman kallað eftir umbótum á veginum sem tengir höfuðborgina við Þingvelli, og liggur í gegnum Mosfellsdalinn en umferð þar um hefur snaraukist undanfarin á samfara fjölgun ferðamanna. Samtökin hyggjast boða til fundar um veginn eftir helgi. Jóhannes Hilmarsson, sem situr í stjórn íbúasamtakanna, segir að samtökin vilji fá hraðamyndavélar á veginn og banna framúrakstur.

Aðalbaráttumálið sé þó reyndar að nýr vegur verði lagður frá Geithálsi við Hólmsheiði að Skálabrekku, en þannig mætti komast til Þingvalla án þess að fara í gegnum dalinn.

Enginn verðmiði á mannslíf

Hámarkshraðinn á veginum er 70, en Jóhannes segir það engu skipta. Menn keyri alveg jafnhratt þar og á hringveginum. „Það sést aldrei lögreglubíll á svæðinu. Ef þú reynir að halda þér á löglegum hraða ertu aðallega að skapa hættu því þá reyna bílar að taka fram úr þér,“ segir hann og bætir við að það séu helst ferðamenn sem haldi hraðanum niðri.

Hraðamyndavél kostar með uppsetningu um eina milljón króna, en Jóhannes segir að ekki sé hægt að setja verðmiða á mannslíf.

Jóhannes segir að íbúasamtökin hafi reynt að fá fund með …
Jóhannes segir að íbúasamtökin hafi reynt að fá fund með ráðherra síðan í janúar. Ljósmynd/Aðsend

Framúrakstur í blindni skapar hættu

Jóhannes segist lengi hafa rætt við Vegagerðina um að leggja bann við framúrakstri á veginum. Því fylgi ekki mikil fyrirhöfn. Aðeins þurfi að mála heila línu í miðjan veginn, í stað brotinnar línu. „En það þarf að fara í eitthvert ferli. Þeir [hjá Vegagerðinni] eru búnir að hugsa svo mikið um þetta að það verða bara dauðaslys,“ segir hann. Einn lést í bílslysi á Þingvallavegi í gærkvöldi, en sá sem lést var farþegi í bíl sem tekið var fram úr.

Þótt vegurinn sé beinn er mikið um gatnamót á honum inn að heimilum fólks og segir Jóhannes að hætta skapist oft þegar bílar hægja á sér til að beygja af veginum. Þá reyni bílar fyrir aftan að taka fram úr án þess að sjá almennilega hvort aðrir bílar eru að koma inn á veginn af gatnamótunum. Hann hafi sjálfur oft þurft að flauta til að vara bílstjóra við bílum sem þeir sjá ekki.

Íbúasamtökin hafa reynt að fá fund með samgönguráðherra frá í janúar, en Jóhannes segir að það gangi hægt. Þau séu númer „tuttugu og eitthvað“ í röðinni.

Hringtorg og breikkun væntanleg

Fyrir liggja áætlanir um endurbætur á veginum um Mosfellsdal með það fyrir augum að draga úr hraðakstri og hefur áhersla verið lögð á samráð við íbúa, að því er segir á heimasíðu Vegagerðarinnar. Stefnt er að því að koma upp tveimur hringtorgum á veginn, annars vegar við gatnamót Helgadalsvegar um hálfum kílómetra vestan Laxness, og hins vegar gatnamót Æsustaðavegar og Mosfellsvegar aðeins vestar. Hringtorgin ættu að verða til þess að minnka framúrakstur.

Gatnamót Helgadalsvegar og Þingvallavegar í Mosfellsdal. Þau þykja hættuleg og …
Gatnamót Helgadalsvegar og Þingvallavegar í Mosfellsdal. Þau þykja hættuleg og stefnt er að því að útbúa hringtorg á þessum stað. mbl.is/Árni Sæberg

Þá á að leggja undirgöng undir veginn við Helgadalshringtorgið, fyrir gangandi, ríðandi og hjólandi umferð. Einnig á að breikka akreinar um 20 sentimetra og breikka axlir úr 30 sentimetrum í einn metra til að auka öryggi hjólandi.

Ekki var gert ráð fyrir framkvæmdunum á samgönguáætlun fyrir árin 2015-2018 og segir Jóhannes að nú sé í fyrsta lagi horft til ársins 2020.

mbl.is