Fleiri Íslendingar en íbúar í Mountain

Loretta Bernhoft, Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra, Gunn­ar Sig­valda­son, eiginmaður Katrínar, Curtis …
Loretta Bernhoft, Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra, Gunn­ar Sig­valda­son, eiginmaður Katrínar, Curtis Olafson, formaður Íslendingafélagsins í Mountain, og Björk Eiríksdóttir. mbl.is/Steinþór Guðbjartsson

Enn ein Íslendingadagshátíðin í bænum Mountain í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum er hafin, sú 119. í röðinni, og eins og svo oft undanfarin ár eru gestir frá Íslandi fleiri en íbúar í bænum. 

Fyrir nokkrum árum bjuggu um 100 manns í Mountain, þeir voru 92 samkvæmt manntali 2010, en þeim hefur fækkað síðan. Það breytir samt ekki áhuganum á öllu sem íslenskt er og nú stendur yfir hátíð sem dregur að sér yfir 100 manns frá Íslandi. Þar á meðal er Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, sem er sérstakur heiðursgestur og flytur ávarp síðdegis að staðartíma, um kvöldmatarleytið að íslenskum tíma.

Íslensk hefð í 19 ár

Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti Íslands, var heiðursgestur á hátíðinni 1999. „Þá lögðum við sérstaka áherslu á íslenskan uppruna íbúanna, sögu og menningu, og höfum haldið í hefðina síðan,“ segir Curtis Olafson, formaður Íslendingafélagsins á svæðinu. 

Undanfarna daga hefur verið vel heitt í Mountain og er spáð um 30 stiga hita í dag. Veðrið hefur samt engin áhrif á viðamikla dagskrána, sem hófst á fimmtudag og lýkur á morgun, sunnudag. Því síður á fjölda gesta. Undanfarin ár hefur íbúafjöldinn margfaldast um þessa helgi og Curtis segir enga breytingu verða á aðsókninni í ár. „Gestir koma víðs vegar að og færst hefur í vöxt að brottfluttir íbúar hafi komið „heim“ um þessa helgi. Við eigum von á nokkrum þúsundum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert