500 milljarðar lítra til sjávar

Rúmmál hlaupvatnsins er 435 milljarðar lítra.
Rúmmál hlaupvatnsins er 435 milljarðar lítra. mbl.is/RAX

Skaftárhlaup sem nú stendur yfir er það rúmmálsmesta frá því mælingar hófust. Síðan hlaup hófst á föstudag hafa um 500 gígalítrar (500 milljarðar lítra) vatns runnið til sjávar úr Skaftá. Þar af eru 435 gígalítrar úr kötlunum tveimur sem hljóp úr en 65 gígalítrar úr svokölluðu grunnrennsli árinnar, því sem búast má við í hefðbundnu árferði.

Rúmmál hlaupsins 2015 var 425 gígalítrar, þar af um 365 gígalítrar frá jökli, en hámarksrennsli mældist þó meira í því hlaupi.

Eins og sést á grafinu var hámarksrennsli í hlaupinu 2015 …
Eins og sést á grafinu var hámarksrennsli í hlaupinu 2015 (blá lína) mun meira en nú en það gekk einnig hraðar niður. Graf/Veðurstofan

Í samtali við mbl.is segir Hildur María Friðriksdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, að í upphafi hafi verið talið að hlaupið nú yrði minna að rúmmáli en árið 2015 enda minna vatn í eystri katlinum, þeim sem hljóp úr, nú en fyrir þremur árum. Hlaupið hafi síðan dregist á langinn þegar fór að hlaupa úr Vestari-Skaftárkatli. Er þetta í fyrsta sinn frá því farið var að fylgjast með Skaftárhlaupum sem eystri og vestri katlar Skaftárjökuls í Vatnajökli hlaupa samtímis en þó tíðkast að hlaupi í öðrum katli fylgi hlaup í hinum.

Enn rénar í ánni. Rennsli við Sveinstind og Eldvatn mældist á hádegi um 180 rúmmetrar á sekúndu (m3/s) en til samanburðar er talið að rennsli hafi náð 2.000 m3/s þegar mest lét um helgina. Hildur segir eðlilegt rennsli á þessum árstíma um 140 m3/s og á von á að því verði náð innan tveggja sólarhringa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert