Skaftárhlaup hafið

Skaftárhlaup 2015.
Skaftárhlaup 2015. mbl.is/Rax

Minniháttar Skaftárhlaup er hafið samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Grannt er fylgst með þróun þess en rennsli Skaftár við Sveinstind hefur verið að aukast síðan kl. 16 í gær.

„Sumarleysing á jökli eða rigningar orsaka ekki hið aukna rennsli. Þessar athuganir þýða að Skaftárhlaup er líklega hafið. Rennslið við Sveinstind er nú um 270 rúmmetrar á sekúndu eða heldur meira en mesta rennsli sem áin náði í jöklaleysingu í sumar. Hlaupið kemur líklegast úr Vestari Skaftárkatli, sem síðast hljóp úr í júní 2015. Hlaupið hefur náð niður í byggð og fylgir því mikil brennisteinslykt og sjónarvottar hafa tilkynnt um að áin sé vatnsmikil og að hún sé dökk á lit.

Vegna hins stutta tíma sem liðið hefur milli hlaupa er ekki talið að hætta sé á ferðum. Upptök hlaupsins fást ekki staðfest nema með athugunum úr flugi yfir katlana. Hlaupið getur staðið yfir næstu daga, en hámarksrennsli við Sveinstind verður líklegast náð í dag. Aftur skal bent á að hér er um minniháttar jökulhlaup að ræða og mjög ólíklegt er að það valdi tjóni í Skaftárdal,“ segir í tilkynningu frá náttúruvársérfræðingum Veðurstofu Íslands.

Skaftá í ham í flóði í fyrra.
Skaftá í ham í flóði í fyrra. mbl.is/RAX

Möguleg vá

  • Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Styrkur þess er þá svo mikill að það getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi. Ferðafólki er því eindregið ráðlagt að halda sig fjarri jöðrum Skaftárjökuls og Tungnárjökuls á meðan hlaupið stendur yfir. Þegar styrkur brennisteinsvetnisins fer yfir hættumörk er fólk hætt að finna lyktina.
  • Sprungur munu myndast mjög hratt í kringum ketilinn, því ætti ferðafólk á Vatnajökli að halda sig fjarri kötlunum.


Upptök hlaupa í Skaftá eru undir tveimur jarðhitakötlum í Vatnajökli. Þegar hleypur úr þeim rennur vatnið fyrst um 40 km undir jöklinum og síðan 20 km eftir farvegi Skaftár áður en það kemur að fyrsta vatnshæðarmæli, sem er viðvörunarmælir við Sveinstind. Söfnunarhraði í katlana er nokkuð jafn, því er langur tími á milli flóða jafnan ávísun á stór flóð. Hlaup úr eystri katlinum eru jafnan stærri en þau sem koma úr vestari katlinum. Úr hvorum katli hleypur að jafnaði á tveggja ára fresti. Hámarksrennsli í hlaupum úr vestri katlinum hefur mest orðið um 900 m3/s, en er venjulega á bilinu frá 200 til 700 m3/s. Vatn tekur nokkurn tíma að ná niður að þjóðvegi, en það mun flæða út á hraunið neðan Skálarheiðar. Útbreiðsla þess nær þó ekki hámarki fyrr en nokkru eftir að það tekur að draga úr rennsli við Sveinstind.

mbl.is