Synjað gagna um son sinn

Maðurinn kærði synjun Tryggingastofnunar á beiðni um að fá upplýsingar …
Maðurinn kærði synjun Tryggingastofnunar á beiðni um að fá upplýsingar um barn sitt. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Tryggingastofnun þarf að taka aftur til meðferðar upplýsingabeiðni manns sem óskaði eftir gögnum frá Tryggingastofnun um son sinn. Upprunalegri beiðni mannsins var synjað þar sem hann var ekki talinn aðili að máli barns síns.

Þetta kemur fram í nýjum úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Maðurinn kærði synjun Tryggingastofnunar á beiðni um að fá upplýsingar um barn hans. Fram kom að barnsmóðir mannsins væri aðili að málum hjá stofnuninni sem varða barnið en ekki kærandi.

Tryggingastofnun taldi manninn ekki aðila málsins vegna þess að barnið er með lögheimili hjá móður og fær hún því greiðslur með því en foreldrar fara með sameiginlega forsjá.

Í kæru kemur m.a. fram að sonur kæranda hafi haft umönnunarkort frá árinu 2015 og hafi móðir hans fengið bætur vegna fötlunar hans. Kærandi hafi þó ekki vitað af því, þrátt fyrir að hann hafi sótt um kortið ásamt móðurinni. Fram kemur að kærandi og barnsmóðir hans séu með sameiginlega forsjá og jafna umgengni. Ekkert mæli gegn því að þessar upplýsingar séu aðgengilegar kæranda enda snúist þær um son hans en ekki móður barnsins.

Úrskurðarnefnd taldi augljóst að maðurinn hefði hagsmuni af því umfram almenning að fá upplýsingar er varða barn hans með beinum hætti, svo sem læknisfræðileg gögn sem og upplýsingar um barnið sem fram koma í samskiptum barnsmóður hans og Tryggingastofnunar.

Stofnunin hefði átt að meta rétt mannsins til upplýsingar að gögnunum. Ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 9. nóvember 2017, um að synja beiðni kæranda um aðgang að gögnum er felld úr gildi og lagt fyrir Tryggingastofnun að taka beiðnina til nýrrar meðferðar, segir í úrskurðarorðum nefndarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka