Íbúar taki trampólínin niður

Veðurstofa Íslands

Lögreglan á Suðurlandi hefur varað við foktjóni vegna hvassviðris í kvöld. „Við hvetjum fólk til að taka niður trampólín og aðra lausamuni,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi.  

Í hugleiðingum veðurfræðings er varað við foktjóni á Faxaflóa, Snæfellsnesi og Suðurlandi. Þar kemur einnig fram að veðrið sé „varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind og létta tengivagna, svo og útivistarfólk og tjaldbúa sem hyggja á dvöl á hálendinu.“

Spáð er hvassviðri og vætu í kvöld, einkum um vestanvert landið og miðhálendið. Hviður gætu farið yfir 30 m/s við fjöll og nálægt 40 m/s á norðanverðu hálendinu.

Stíf suðaustanátt verður í kvöld á höfuðborgarsvæðinu og víða 13-18 m/s  en staðbundið gætu hviður náð 30 m/s. Gul viðvörun hefur verið gefin út á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði og miðhálendinu.

Vakthafandi veðurfræðingur sagði í samtali við mbl.is að í dag fari að hvessa, en að slitrótt rigning verði á höfuðborgarsvæðinu fram á kvöld. Seint í kvöld verði veðrið síðan hvað verst og rigning þar til 4 eða 5 í nótt. Þegar skilin hafa gengið yfir tekur síðan við stíf sunnan- og vestanátt með skúraveðri sem helst fram á laugardag.

Davíð Már Bjarnason, verkefnisstjóri aðgerða hjá Landsbjörg segir fólk vera sem betur fer almennt vel upplýst um veðrið en björgunarsveitirnar séu alltaf tilbúnar að bregðast við þegar kallið kemur. „Það er augljóslega útlit fyrir aukinn vind seinnipartinn í dag og við hvetjum fólk til að gæta að lausamunum.“

Sveinn Kr. Rúnarsson yfirlögregluþjónn á Suðurlandi.
Sveinn Kr. Rúnarsson yfirlögregluþjónn á Suðurlandi. Mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka