Komandi kjaraviðræður snúast um lífskjör

Ragnar Þór Ingólfsson og Halldór Benjamín Þorbergsson ræddu komandi kjarasamingaviðræður …
Ragnar Þór Ingólfsson og Halldór Benjamín Þorbergsson ræddu komandi kjarasamingaviðræður á Þingvöllum í morgun.

Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, formaður VR og Hall­dór Benja­mín Þor­bergs­son, formaður SA, eru sammála um að komandi kjaraviðræður muni snúast um lífskjör.

„Í þessum kjarasamningum sem fram undan eru erum við að semja um lífskjör allra á Íslandi, hringinn í kringum landið,“ sagði Halldór Benjamín í samtali við Björt Ólafsdóttur, þáttastjórnanda þjóðmálaþáttarins Þingvalla, sem hóf göngu sína á ný á K100 í morgun.

Ragnar Þór segir að kröfugerð VR fyrir komandi kjaraviðræður sé að mestu klár, fyrir utan launaliðinn.  „Verkalýðsfélögin eru nánast í þessum töluðu orðum að setja saman sínar kröfugerðir og það mun skýrast á næstu tveimur til þremur vikum hver tónninn verður varðandi launaliðinn og hvort að það verði krónutöluhækkanir eins og mikið verður rætt um,“ sagði Ragnar.  

Halldór Benjamín segir atvinnurekendur að sama skapi vera að búa til sínar áherslur inn í kjarasamningana. „Báðir aðilar koma með eitthvað að borðinu og þurfa að gefa eitthvað eftir til þess að miðla málum. Þetta er ekki þannig að atvinnurekendur bíði bara með hendur í skauti og fái einhverja kröfugerð og bregðist við henni, alls ekki.“

„Okkar kröfugerð snýr að styttingu vinnuvikunnar, þjóðarátaki í húsnæðismálum, ráðast gegn vöxtum á verðtryggingunni og ýmsu sem snýr að lífskjörum almennt,“ sagði Ragnar.

Krafa Framsýnar hófleg

Björt spurði Ragnar hvort hann myndi styðja kröfu stéttarfélaga um 375.000 króna lágmarkslaun, en stéttarfélagið Framsýn á Húsavík greindi frá því í vikunni að félagið mun krefjast þess í kom­andi kjaraviðræðum við at­vinnu­rek­end­ur að lág­marks­laun verði 375.000 kr. á mánuði fyr­ir fullt starf.

„Mér finnst hún hófleg. Svo fer eftir því á hversu löngum tíma við erum að tala um. Hvernig ætlum við að dreifa því sem er til skiptanna. Ef við tökum 375.000 og setjum yfir í prósentur og hækkum yfir allan skalann eru þetta náttúrulega ævintýralegar upphæðir sem ég held að allir séu sammála um að gangi ekki upp. En við þurfum að ákveða hvernig við ætlum að skipta því sem er til skiptanna, hverjir munu fá mest og hverjir þurfa mest og hverjir þurfa mest á því að halda,“ sagði Ragnar.

Halldór Benjamín hefur sagt að krafan muni leiða til 200 til 300 millj­arða hækk­un­ar launa­kostnaðar á ári.

Fleira sem sameinar en sundrar

Halldór Benjamín segir það augljóst að blikur séu á lofti í atvinnu- og launamálum og að fólk skynji það sjálft. Hins vegar er hann sannfærður um að fleiri þættir sameini verkalýðshreyfinguna og atvinnurekendur en sundri.

„Það eru átakapunktar hér og þar en það sem við erum heilt yfir sammála um er það að næstu samningar verði einhvers konar lífskjarasamningar. Við erum að byggja undir bætt lífskjör allrar þjóðarinnar,“ sagði Halldór Benjamín.  

Húsnæðismál, afnám verðtryggingar, vextir og launamál almennt voru einnig meðal umræðuefna í þætti dagsins sem má hlusta á heild sinni á vef K100. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert