Repja knýi allan flotann

Verðlaun. Frá vinstri: Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, Sandra Rán Ásgrímsdóttir …
Verðlaun. Frá vinstri: Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, Sandra Rán Ásgrímsdóttir Mannviti, Gunnar Ásgeirsson, stjórnarformaður Skinneyjar-Þinganess, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Jón Bernódusson Samgöngustofu og Ragna Sara Jónsdóttir, formaður dómnefndar.

Skinney-Þinganes fékk verðlaun á Umhverfisdegi atvinnulífsins í dag fyrir framtak ársins á sviði umhverfismála. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin og veitti Gunnar Ásgeirsson stjórnarformaður Skinneyjar-Þinganess þeim viðtöku.

Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að fyrirtækið hafi haft jákvæð áhrif á umhverfi sitt og sýnt frumkvæði með nýjum verkefnum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, til dæmis með rafvæðingu fiskimjölsverksmiðju Skinneyjar-Þinganess og með tilraun til að framleiða nýja orkugjafa á skip félagsins.

Skinney-Þinganes á og rekur eitt stærsta kúabú landsins í Flatey á Mýrum, nokkuð fyrir vestan Hornafjörð. Á ökrum þar er ræktuð repja sem er góð fyrir kýrnar, búið sjálft og útgerðina. Repjan nýtist á búinu en Skinney mun einnig nýta hana til að hefja framleiðslu á umhverfisvænni skipaolíu. Er framleiðsla á henni nú að hefjast.

„Repjan er mjög áhugavert verkefni. Við höfum nægt landrými í Flatey og þann möguleika að geta nýtt afurðir repjunnar ýmist sem orkugjafa fyrir skipin okkar eða fóður fyrir kýrnar,“ segir Hjalti Vignisson, framkvæmdastjóri sölumála hjá Skinney-Þinganesi.

Ásgrímur Halldórsson er annað tveggja uppsjávarskipa Skinneyjar-Þinganess.
Ásgrímur Halldórsson er annað tveggja uppsjávarskipa Skinneyjar-Þinganess. Mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Krafturinn á við olíu

Repjuverkefnið er unnið í samstarfi við Samgöngustofu og verkfræðistofuna Mannvit. Repjuolíu má nota sem íblöndunarefni á allar olíuvélar. Krafturinn er sá sami og úr jarðefnaolíu. Útblásturinn sem verður til við brennsluna er hins vegar hreinni og loftslagið græðir.

Á landsvísu hefur tekist hefur að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda sem rekja má til sjávarútvegs. Hefur notkun minnkað um 43% frá 1990 með fjárfestingu í nýjum skipum og tækni. Með því að nýta repjuolíu getur staðan orðið enn betri. Þeir bjartsýnustu telja að hægt væri að rækta næga repju á Íslandi til að framleiða olíu til að knýja allan fiskiskipaflotann.

Litfagur repjuakur.
Litfagur repjuakur. Morgunblaðið/Helgi Bjarnason

Fjósið gangi fyrir mykju

Stjórnarformaður Skinneyjar-Þinganess tók við verðlaununum ásamt Jóni Bernódussyni frá Samgöngustofu og Söndru Rán Ásgrímsdóttur frá Mannviti, en þau áttu frumkvæði að verkefninu.

„Það hefur verið sérstaklega gott samstarf á milli okkar, Samgöngustofu og Mannvits í þessu verkefni og eiga þau mikið hrós skilið fyrir sína aðkomu. Í raun og veru má segja að við höfum fengið að stökkva upp á vagninn þegar þau voru búin að koma honum á ferðina,“ sagði Gunnar sem nefndi enn fremur að til skoðunar væri í Flatey að framleiða þar rafmagn úr metani frá kúamykjunni.

Repjan er orkugjafi, segir Hjalti Þór Vignisson.
Repjan er orkugjafi, segir Hjalti Þór Vignisson. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert