92 ára látin sofa inni á salerni

Samkvæmt upplýsingum Berglindar er gert ráð fyrir einu plássi á …
Samkvæmt upplýsingum Berglindar er gert ráð fyrir einu plássi á klósetti deildarinnar. Ljósmynd/Aðsend

„Systir mín fór til hennar í morgun og þá sat mamma með matarbakkann inni á klósetti. Hún fór fram og spurði hvort þetta væri boðlegt og þá hjálpuðu þær henni að rúlla henni fram á gang.“

Þetta segir Berglind Sigurðardóttir í samtali við mbl.is, en 92 ára gömul móðir hennar var lögð inn á bráðaöldrunarlækningadeildina á Landspítalanum í Fossvogi í gær þar sem henni var gert að sofa inni á klósetti.

„Maður er alveg miður sín og hefur ekkert sofið í nótt út af þessu,“ segir Berglind, sem greindi frá málinu á Facebook í gærkvöldi. Móðir hennar datt og fékk slæma byltu í síðustu viku og var lögð inn á bráðadeildina í Fossvogi. Þar var hún í tvo daga í herbergi með 10 til 15 öðrum þangað til hún fékk pláss á lyflækningadeild.

Hún var komin aftur til sjálfrar sín, að sögn Berglindar, en hefur hrakað eftir að hún var flutt á klósettið á bráðaöldrunarlækningadeild í gærkvöld.

„Við erum búin að missa hana aftur í þetta ruglástand. Hún var orðin vel áttuð og komin til baka, en er farin aftur. Hún er farin að tala eins og pabbi sé á lífi, hann lést fyrir 15 árum. Við náum engu sambandi við hana.“

Berglind segir starfsfólkið allt af vilja gert og að móðir hennar hafi fengið góða aðhlynningu á deildinni þrátt fyrir ástandið. „Okkur var sagt í gærkvöldi að þetta væri bara það sem væri í boði, það væri alltaf einhver einn settur þarna inn á klósett. Það væri gert ráð fyrir einu plássi á klósettinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert