Hviður yfir 50 m/s og mælir farinn

Víða hefur verið mikið hvassviðri í dag.
Víða hefur verið mikið hvassviðri í dag. mbl.is/RAX

Vindhviður á sunnanverðu Snæfellsnesi hafa meira og minna verið yfir 50 m/s frá miðnætti og mælir við Lómagnúp í Öræfum datt út í nótt. Veður er smám saman að ganga niður á vestanverðu landinu. Þetta segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Veður er orðið rólegra á Suðurlandi og Suðausturlandi og dregið hefur úr vindi á Snæfellsnesi og Kjalarnesi þótt þar sé enn ófært. Búist er við hvassviðri víðast á landinu fram á kvöld.

Víða á norðan- og austanverðu landinu er mokhríð og ekkert ferðaveður, lélegt skyggni og mikil snjókoma. Ekki er útlit fyrir að veður skáni á Norðurlandi fyrr en á morgun.

„Á sunnanverðu Snæfellsnesi hafa vindhviður verið yfir 50 m/s meira og minna frá miðnætti,“ segir Elín Björk. Á Fróðárheiði og undir Hafursfelli hefur einnig verið verulega hvasst, sem og á Kjalarnesi og vestast í borginni.

„Í Öræfum fór mælir við Lómagnúp í nótt svo við vitum ekki alveg hvernig veðrið fór þar. Við vitum ekki hvað gerðist, hann gæti hafa skemmst eða orðið bilun.“

Á laugardag verður áfram éljagangur á Norðurlandi, en veður verður rólegt á sunnudag og eftir helgi. Búast má við að veður kólni talsvert.

Uppfært kl. 15:29: Búið er að opna veginn um Kjalarnes. Þar er þó enn bálhvasst, samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert