Hættulegar aðstæður í óveðrinu

mbl.is/Júlíus

Ekkert hefur verið flogið innanlands það sem af er degi og hringvegurinn er lokaður vegna óveðurs. Vindhraðinn hefur nálgast 60 metra á sekúndu í hviðum á nokkrum stöðum á landinu. Appelsínugul viðvörun er á Faxaflóasvæðinu og Suðausturlandi en gul viðvörun annars staðar. 

Þjóðvegur 1 er lokaður á Suðausturlandi frá Gígjukvísl að Jökulsárlóni. Þá er vegurinn um Kjalarnes einnig lokaður sem og Fjarðarheiði. Lokað er á Öxnadalsheiði, Hófaskarði og Hálsum, einnig á Mývatns- og Möðrudalsöræfum. Þjóðvegur 1 er lokaður frá Hvolsvelli austur í Vík. Vegur 54 við Hraunsmúla er lokaður.

Á Faxaflóasvæðinu tók appelsínugul viðvörun gildi klukkan 8 í morgun og gildir hún til klukkan 14. Þar er norðaustan og norðan 15-23 m/s, en 23-28 á Snæfellsnesi, Kjalarnesi og við Hafnarfjall þar sem vindhviður geta náð yfir 50 m/s. Hættulegar aðstæður til ferðalaga og foktjón mögulegt.

Á Suðausturlandi hefur appelsínugul viðvörun verið í gildi frá því klukkan 18 í gær og verður í gildi til klukkan 15 í dag. Þar er norðaustanrok eða ofsaveður.

Norðaustan 23-30 m/s og vindhviður um 45-55 m/s við fjöll frá Lómagnúpi til austurs í Lón. Hættulegar aðstæður til ferðalaga og líkur á grjót og sandfoki.

Færð og aðstæður

Suðurland: Víðast hvar greiðfært en mjög hvasst á flestum leiðum. Þjóðvegur 1 er lokaður frá Hvolsvelli austur í Vík.

Suðvesturland: Víðast hvar greiðfært en mjög hvasst á flestum leiðum. Lokað er á Kjalarnesi.

Vesturland: Hálkublettir og éljagangur er á flestum leiðum og mjög hvasst. Lokað er á sunnanverðu Snæfellsnesi á milli Fróðárheiðar og Vatnaleiðar.

Vestfirðir: Snjóþekja eða hálkublettir og éljagangur er á flestum leiðum. Allhvasst er víða. Snjóþekja og stórhríð er á Steingrímsfjarðarheiði en hálkublettir og stórhríð er á Þröskuldum. Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði eru lokaðar.

Norðurland:  Lokað er á Öxnadalsheiði og ófært í Víkurskarði og Siglufjarðarvegi. Hálka, hálkublettir eða snjóþekja og snjókoma eða éljagangur er á velflestum leiðum. Þungfært og stórhríð er í Ólafsfjarðarmúla en þæfingsfærð er til Dalvíkur og Akureyrar.

Norðausturland: Lokað er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum, einnig á Vopnafjarðarheiði og hálka. Hálka eða snjóþekja er á allflestum leiðum. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Sandvíkurheiði.

Austurland: Víða snjóþekja eða hálkublettir. Ófært er á Vatnsskarði eystra. Lokað er á Fjarðarheiði og Öxi.

Suðausturland: Vegir eru auðir en sums staðar nokkuð hvasst og byljótt. Þjóðvegur 1 er lokaður frá Gígjukvísl í Jökulsárlón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert