„Er ekki bara hæfileikakeppni“

Benedikt Guðmundsson segir að næsti leikur Njarðvíkur og Vals verði …
Benedikt Guðmundsson segir að næsti leikur Njarðvíkur og Vals verði lykilleikur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Benedikt Guðmundsson, hinn gamalreyndi þjálfari Njarðvíkur, segir að á næstunni komi í ljós hvort Njarðvíkingar hafi þann andlega styrk sem þarf til að komast alla leið í úrslit Íslandsmótsins í fyrsta skipti í áraraðir. 

Úrslitakeppnin snúist mikið um andlegu hliðina og sé ekki einungis hæfileikakeppni í íþróttinni. Njarðvík er 1:0 yfir í undanúrslitarimmunni eftir stórsigur gegn Val á Hlíðarenda í kvöld 105:84. 

Benedikt hefur aldrei verið þekktur fyrir yfirlýsingagleði eftir sigurleiki og því er freistandi að spyrja hann hvort úrslitin séu ekki ráðin í rimmunni? 

„Neeeiiii,“ segir Benedikt og skellir upp úr. „Það er svo langur vegur frá því. Við vorum 1:0 yfir í síðustu seríu og stuttu síðar vorum við algerlega upp við vegg 1:2 undir. 1:0 þegar vinna þarf þrjá leiki er ekki mikið. Við erum alveg rólegir.“

Njarðvíkingar voru mjög sannfærandi í kvöld. Hafði Benedikt myndað sér sterkar skoðanir á því hvernig best sé að leika gegn Valsliðinu? 

„Já já. Við fengum ekki langan tíma til að undirbúa okkur en þar sem við vorum nýbúnir að spila við þá í deildinni þá hjálpaði það og kannski báðum liðunum. Já, frammistaðan var góð en hún er ekki ávísun á að Valsmenn hitti jafn illa í næsta leik og þeir gerðu í kvöld. Valur lenti 0:1 undir í fyrra eða tímabilið þar áður en unnu samt 3:1. Þeir munu svara af krafti og þá er eins gott að við séum tilbúnir.“

„Næsti leikur er alger lykilleikur“

Njarðvík hefur nú unnið þrjá leiki í röð í úrslitakeppninni eftir að hafa lent 1:2 undir gegn Þór Þ. í úrslitakeppninni. Er hægt að setja fingurinn á eitthvert sérstakt atriði sem Njarðvíkingum tókst að laga á þeim tímapunkti? 

„Úrslitakeppni snýst mikið um andlegan styrk og hvernig þú ert í kollinum. Þetta er ekki bara hæfileikakeppni í körfubolta. Sérstaklega í svona seríu þar sem þú mætir sama andstæðingi aftur og aftur. Menn kýta á vellinum og allt þetta sem fylgir. Nú reynir á okkur. Höfum við það sem þarf? Það eina sem við erum búnir að afreka núna er að ná af þeim heimaleikjaréttinum og við þurfum að koma okkur í góða stöðu í næsta leik. Það er bara alger lykilleikur í seríunni,“ segir Benedikt sem síðast var í úrslitum Íslandsmóts karla árið 2012 og þá sem þjálfari Þórs Þorlákshafnar. Njarðvík hefur komist í undanúrslit frá því hann tók við liðinu fyrir þremur árum. Er hann hungraður í sigur á Íslandsmótinu? 

„Ég er bara í núinu og spái lítið í fortíðinni. Ég hugsa bara um næsta leik og reyni að loka mig frá umheiminum. Ég get ekki verið að hugsa um neitt annað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert