Fer frá Liverpool til Salzburg

Pep Lijnders á hliðarlínunni hjá Liverpool.
Pep Lijnders á hliðarlínunni hjá Liverpool. AFP

Hollendingurinn Pep Lijnders hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri austurríska meistaraliðsins Salzburg en hann yfirgefur Liverpool að þessu tímabili loknu.

Lijnders hefur verið aðstoðarmaður Jürgens Klopps, knattspyrnustjóra Liverpool, undanfarin ár en félagið staðfesti brottför hans til Austurríkis núna um hádegið. Hann hefur samið til þriggja ára við Salzburg.

Linders er 41 árs gamall og kom til Liverpool árið 2014 þar sem hann var fyrst þjálfari U16 ára liðsins og síðan aðstoðarmaður Brendans Rodgers þáverandi knattspyrnustjóra. Lijnders var svo hægri hönd Klopps eftir að Þjóðverjinn tók við haustið 2015.

Hann fór þó frá enska liðinu í ársbyrjun 2018 þegar hann var ráðinn stjóri Nijmegen í Hollandi en honum var sagt upp störfum aðeins fjórum mánuðum síðar og þá sneri hann aftur til Liverpool.

Vitor Matos verður aðstoðarþjálfari hans í Salzburg en Matos hefur starfað sem tengiliður milli unglingaliðs og aðalliðs Liverpool í hálft fimmta ár.

Útlit er fyrir að Lijnders taki ekki við Salzburg sem meistaraliði því liðið er í öðru sæti, tveimur stigum á eftir Sturm Graz, fyrir lokaumferðina um næstu helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert