Hættir hjá KSÍ og fer til Danmerkur

Jóhannes Karl Guðjónsson.
Jóhannes Karl Guðjónsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jóhannes Karl Guðjónsson er hættur störfum sem aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í knattspyrnu og hann tekur við sem þjálfari danska félagsins AB.

KSÍ tilkynnti þetta á heimasíðu sinni í dag og fram kemur að Jóhannes láti af störfum frá og með deginum í dag.

Hann verður því ekki með í næsta verkefni landsliðsins sem er vináttulandsleikir gegn Englandi og Hollandi 7. og 10. júní.

Hjá AB hefur Jóhannes skrifað undir þriggja ára samning og kemur strax til félagsins en forvera hans, David Roupanah, var sagt upp störfum á sunnudaginn.

AB leikur í dönsku C-deildinni og meðal leikmanna liðsins er Ágúst Eðvald Hlynsson sem fór þangað frá Breiðabliki í vetur.

AB er frá Kaupmannahöfn og er eitt frægasta félag Danmerkur en AB hefur níu sinnum orðið danskur meistari. Það eru hins vegar liðin 57 ár frá síðasta titlinum, árið 1967. Eini titillinn eftir það er sigur í bikarkeppninni árið 1999.

AB lék síðast í úrvalsdeildinni árið 2004 en hefur leikið í C-deildinni frá 2015, að einu ári undanskildu. Þar er liðið í sjötta sæti þegar fimm umferðum er ólokið og á enga möguleika á að vinna sér sæti í B-deildinni að þessu sinni.

Þá var AB fyrsta erlenda knattspyrnufélagið sem heimsótti Ísland, árið 1919.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert