Þessi 39 ára gömlu hné höndla ekki meira

Þórey Anna Ásgeirsdóttir og Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, til hægri, fallast …
Þórey Anna Ásgeirsdóttir og Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, til hægri, fallast í faðma eftir að Íslandsmeistaratitillinn var í höfn í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, varnarjaxlinn þaulreyndi í liði Íslandsmeistara Vals í handknattleik, segist lofa því að nú séu skórnir komnir á hilluna.

„Það er geggjuð tilfinning að vera Íslandsmeistari og vera hluti af þessu liði sem sýndi frábæran, stöðugan vetur.

Ég er ótrúlega þakklát fyrir að hafa fengið að vera með í þessari lest,“ sagði Anna Úrsúla í samtali við mbl.is eftir 28:25-sigur Vals á Haukum í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í kvöld.

Anna Úrsúla er 39 ára gömul og hefur nokkrum sinnum lagt skóna á hilluna en verið gjörn á að taka þá fram að nýju þegar eftir því er leitað við hana.

„Maður hugsar þetta þannig að á morgun er maður að fara á handboltaæfingu, snerta harpixið og handboltann og allt svoleiðis.

Þetta er svo lítið en verður allt svo endanlegt einhvern veginn því þetta er orðinn svo stór hluti af manni,“ sagði hún nokkuð heimspekilega og bætti við:

„Það er líklegast ástæðan fyrir því að ég segi alltaf já þegar einhver biður mig um að koma aftur. Núna er það samt þannig að þessi 39 ára gömlu hné höndla ekki meira.“

Veit ekki hvort maðurinn minn treysti mér

Ertu alveg viss um að þú sért hætt núna?

„Já, ég er ekki búin að æfa neitt núna síðan í janúar. Ég hef eiginlega bara spilað. Það segir ýmislegt,“ sagði Anna Úrsúla.

Við það kvaðst blaðamaður treysta henni en Anna Úrsúla skaut þá inn í:

„Ég veit ekki hvort að maðurinn minn treysti mér! Þetta er svona úlfur úlfur,“ sagði hún og hló.

Eitthvað slen yfir okkur

Anna Úrsúla var einu sinni sem áður sterk í vörn Vals í leik kvöldsins. Spurð út í leikinn hafði hún þetta að segja:

„Hann var rosalega erfiður. Við vorum ívið betri en í fyrsta leiknum en það var eitthvað slen yfir okkur. Við gerðum hlutina á 80 prósent hraða í staðinn fyrir 100 prósent.

Við náðum að setja í okkar rétta gír þegar þetta var farið að verða hættulegt. Það er kannski einkenni góðra liða þegar við segjum við okkur sjálfar: „Jæja, núna verðum við að loka þessu.“

Mér fannst við gera það. Það var flott að geta siglt þessu heim, klárað þetta á Hlíðarenda og koma með Íslandsmeistaratitil.“

Ánægð að fá að vera fylgihlutur

Anna Úrsúla lýkur þar með ferlinum, að öllum líkindum, með því að vinna þrefalt auk þess sem Valur tapaði einungis einum leik á öllu tímabilinu.

„Maður getur ekki verið annað en ánægður með það, að fá að vera svona fylgihlutur, taka þátt og njóta,“ sagði hún í léttum dúr að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert