Svali byrjaði að öskra á mig

Stuðningsmenn Vals fagna fræknum sigri í kvöld.
Stuðningsmenn Vals fagna fræknum sigri í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valur vann stórkostlegan sigur á Njarðvík eftir að hafa verið undir nánast allan leikinn, mest 11 stigum í fjórða leikhluta, í oddaleik í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik á Hlíðarenda í kvöld.

Valur mætir því Grindavík í úrslitaeinvíginu. Kristófer Acox, fyrirliði Vals, skoraði 14 stig, tók níu fráköst og gaf tvær stoðsendingar í leiknum.

Kristófer var að vonum ánægður með sigurinn þegar mbl.is ræddi við hann að leik loknum. 

Þið eruð 11 stigum undir og rúmar fimm mínútur eftir en þið vinnið þennan leik og farið frekar létt með þetta í lokin.

„Við tókum leikhlé og Svali [Björgvinsson] byrjaði að öskra á mig að spila vörn og við náðum loksins að tengjast varnarlega. Svo fórum við að skora risa körfur hinum megin. Kredit á allt liðið mitt í kvöld að svara kallinu þegar mest á reyndi.“

Er þetta það sem við erum að fara sjá í úrslitaeinvíginu á móti Grindavík?

„Vann Grindavík?“ spurði Kristófer.

Já, Grindavík fór létt með Keflavík.

„Við vitum að varnarleikurinn okkar er það sem mun skila okkur úrslitum. Ég er samt ekki búinn að vera nægilega ánægður með hann og hann er ekki búinn að vera nægilega stöðugur hjá okkur og við þurfum að laga það ásamt því að við þurfum að fækka mistökum varnarlega.

Ég trúi því að við munum sýna okkar bestu hliðar í úrslitaeinvíginu,“ sagði Kristófer að lokum í samtali við mbl.is áður en hann hélt áfram að fagna sigrinum á Njarðvík í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert