Ekkert lát á storminum

Siglufjörður.
Siglufjörður. mats.is

Áfram er spáð norðaustanstormi á norðvestanverðu landinu og mjög snörpum vindviðum á sunnanverðu Snæfellsnesi. Á Vestfjörðum, Norður- og Norðausturlandi er spáð áframhaldandi hríðarveðri fram á laugardag. 

Veðurfræðingur Veðurstofu Íslands segir að samgöngur milli landshluta geti farið úr skorðum og er fólk hvatt fylgjast með veðurspám og viðvörunum. Gul viðvörun er í gildi á stórum hluta landsins.

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að lokað sé á Siglufjarðarvegi vegna snjóflóðahættu og óvissustig sé á Ólafsfjarðarmúla og Súðavíkurhlíð.

Veðurspá fyrir næstu daga

Norðaustanátt, yfirleitt 10-18 m/s en 18-23 í vindstrengjum við fjöll vestan- og norðvestan til á landinu og með suðausturströndinni. Snjókoma eða él norðan til á landinu og slydda eða rigning austast en úrkomulítið sunnanlands. Dregur úr úrkomu norðvestan til síðdegis. Frost 1 til 6 stig á Norðurlandi en 0 til 5 stiga hiti syðst. Norðan 8-15 á morgun en 15-20 austast fram eftir degi. Él um norðanvert landið en léttskýjað syðra. Kólnar í veðri.

Á laugardag:

Norðlæg átt, 8-15 m/s en 15-20 m/s með norðausturströndinni fram eftir degi. Snjókoma eða él um norðanvert landið en léttskýjað sunnan til. Frost 2 til 8 stig en frostlaust syðst. 

Á sunnudag:
Norðan 8-15 og él norðan til á landinu en bjartviðri syðra. Frost 2 til 7 stig. Dregur úr vindi og éljum norðanlands um kvöldið og herðir á frosti. 

Á mánudag:
Fremur hæg norðlæg átt eða breytileg átt og stöku él norðaustan til, annars yfirleitt léttskýjað. Frost 2 til 8 stig en kaldara inn til landsins. 

Á þriðjudag:
Vestlæg eða breytileg átt, 3-10 m/ og snjókoma eða él um vestanvert landið en þurrt og bjart austan til. Hiti breytist lítið. 

Á miðvikudag:
Hæg breytileg átt, léttskýjað og talsvert frost. Vaxandi austanátt sunnanlands, þykknar upp og hlýnar. 

Á fimmtudag:
Útlit fyrir hvassa austanátt og rigningu suðaustanlands, en hægari vindur og þurrt annars staðar á landinu. Kalt í veðri norðan til á landinu en frostlaust syðra.

Reynt verður að opna þessa vegi nú í morgunsárið: Á sunnanverðu Snæfellsnesi. Þverárfjalli, Siglufjarðarvegi, Ólafsfjarðarmúla, Öxnadalsheiði, Víkurskarði, Mývatns- og Möðrudalsöræfum, Vopnafjarðarheiði og Hófaskarði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert