Snjóflóðahætta fyrir norðan

Siglufjarðarvegur er lokaður vegna ófærðar og snjóflóðahættu.
Siglufjarðarvegur er lokaður vegna ófærðar og snjóflóðahættu. mbl.is/Styrmir Kári

Snjóflóðahætta er hvergi farin að ógna byggð samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands en búið er að loka Siglufjarðarvegi vegna ófærðar og snjóflóðahættu. Óvissustig er á Ólafsfjarðarmúla vegna snjóflóðahættu, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Ekki er útilokað að snjóflóðahætta skapist í Súðarvíkurhlíð síðar í dag. 

Lokað er á Öxnadalsheiði, Víkurskarði og Siglufjarðarvegi en ófært í Ljósavatnsskarði. Þæfingsfærð er á milli Dalvíkur og Akureyrar, einnig á Grenivíkurvegi. Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er á velflestum leiðum á Norðurlandi og þungfært og stórhríð er á Ólafsfjarðarmúla.

Lokað er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og eins á Vopnafjarðarheiði og Hófaskarði. Ófært er á Fljótsheiði. Hálka eða snjóþekja og snjókoma og skafrenningur er á allflestum leiðum á Norðausturlandi.

Hringvegurinn er enn lokaður á Kjalarnesi en auk þess er leiðin við Hraunsmúla og Hafursfell lokuð á Snæfellsnesi. 

Á Suður-, Suðaustur- og Suðvesturlandi er víðast greiðfært en mjög hvasst. Á Vesturlandi eru hálkublettir og éljagangur á flestum leiðum og mjög hvasst. Snjóþekja eða hálkublettir eru á flestum leiðum á Vestfjörðum. Þæfingur og stórhríð er á Steingrímsfjarðarheiði og ekkert ferðaveður. Stórhríð er á Þröskuldum. Dynjandis- og Hrafnseyrarheiði eru lokaðar. Ófært er á Klettsháls.

Á Austurlandi er víða snjóþekja eða hálkublettir. Ófært er á Vatnsskarði eystra. Lokað er á Breiðdalsheiði og Öxi.

Ekkert verður flogið til Ísafjarðar í dag og kanna á með annað flug hjá Flugfélagi Íslands klukkan 13:30. 

Flugfélagið Ernir hefur heldur ekki flogið innanlands í dag en stefnt er að því að flug hefjist að nýju síðdegis.

Snjóflóðaspá Veðurstofu Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert