Lokað vegna snjóflóðahættu

Ljósmynd/Róbert Beck

Leiðin um Siglufjarðarveg er enn lokuð vegna snjóflóðahættu og óvissustig er á Ólafsfjarðarmúla og Súðavíkurhlíð. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.

Eftirtaldar leiðir eru lokaðar vegna veðurs og færðar: Á sunnanverðu Snæfellsnesi. Þverárfjalli, Siglufjarðarvegi, Ólafsfjarðarmúla, Öxnadalsheiði, Víkurskarði, Mývatns- og Möðrudalsöræfum, Vopnafjarðarheiði og Hófaskarði. 

Unnið er að mokstri á norðanverðu landinu en greiðfært er um landið sunnanvert. 

Upplýsingar um færð

Suðvesturland: Hálkublettir eru í Þrengslum en óveður og hálkublettir á Kjalarnesi.

Vesturland: Lokað er í Staðarsveit og ófært er á Fróðárheiði, hálkublettir, snjóþekja og éljagangur á öðrum leiðum en þó er greiðfært í uppsveitum Borgarfjarðar. Stórhríð er í Miðdölum og í Svínadal. 

Vestfirðir: Þungfært er á flestum fjallvegum, stórhríð og éljagangur. Ófært er á Klettshálsi og Þröskuldum. Hálka, snjóþekja og éljagangur er á Mikladal, Hálfdán og Gemlufallsheiði. 

Norðurland: Lokað er á Þverárfjalli, Öxnadalsheiði, Ólafsfjarðarmúla og á Siglufjarðarvegi frá Ketilási í Siglufjörð. Lokað er á Víkurskarði. Hálka og hálkublettir á öðrum leiðum og éljagangur víða. Þæfingur er í Út-Blönduhlíð í Hofsós. 

Norðausturland: Lokað er um Mývatns- og Möðrudalsöræfi, Vopnafjarðarheiði, Hólasand og á Hófaskarði. Þungfært er á Hólaheiði. Ófært er í Mývatnssveit Fljótsheiði og Ljósavatnsskarði. Þæfingur frá Hálsum í Bakkafjörð. Snjóþekja á Sandvíkurheiði og við Vopnafjörð. 

Austurland: Snjóþekja og snjókoma er á Fjarðarheiði, krapi á Fagradal, snjóþekja er víða á Héraði en greiðfært með ströndinni. 

Í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands kemur fram að í dag verður norðaustanátt, víðast hvar 8-15 m/s en nær þó áfram að slá í storm í vindstrengjum við fjöll vestan og norðvestan til og við suðausturströndina. Snjókoma norðan til á landinu en úrkomulítið syðra og dregur úr úrkomu síðdegis, en bætir svo í úrkomu aftur, og einnig vind, seint í kvöld á norðaustanverðu landinu. Dregur svo úr vindi í nótt, fyrst á Vestfjörðum og víða él norðanlands á morgun. Kólnar í veðri, frost 0 til 9 stig annað kvöld, hlýjast á Suðausturlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert